Íslandsmótið í knattspyrnu byrjar með opnunarleik Pepsi Max deildar kvenna 12. júní. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.
Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað tengdu úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Í dag eru 7 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 12. júní næstkomandi.
Margrét Lára Viðarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir hafa báðar lagt skóna á hilluna og Sandra Stephany Mayor hefur yfirgefið landið eftir fjögur frábær sumur fyrir norðan.

Allar hafa þessar þrjár orðið markadrottningar deildarinnar. Sandra Stephany Mayor varð markahæst í deildinni sumarið 2017 með 19 mörk en Harpa Þorsteinsdóttir varð þrisvar markahæst á fjórum tímabilum frá 2013 til 2016. Mest skoraði hún 27 mörk sumarið 2014.
Margrét Lára Viðarsdóttir er ekki aðeins sú eina af þeim með yfir tvö hundruð mörk í efst deild því hún náði því að verða markadrottning deildarinnar fimm ár í röð frá 2004 til 2008 og 38 marka tímabilið hennar 2007 er ennþá markametið á einu tímabili í efstu deild kvenna.
Allar þessir þrír öflugu leikmenn eiga það sameiginlegt að hafa raðað inn mörkum í úrvalsdeildinni og að auki lagt upp fjölda marka fyrir félaga sína. Þær hafa líka allar orðið Íslandsmeistarar með liðum sínum.

Frá og með sumrinu 2013 hefur ein þeirra verið í Íslandsmeistaraliðinu á öllum tímabilum nema tveimur eða þegar Blikarnir hafa unnið titilinn tvisvar sinnum. Margrét Lára Viðarsdóttir varð Íslandsmeistari á síðasta ári, Sandra Stephany Mayor vann titilinn með Þór/KA 2017 og Harpa Þorsteinsdóttir varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með Stjörnunni frá 2011 til 2016.
Margrét Lára Viðarsdóttir varð líka þrisvar sinnum Íslandsmeistari með Valsliðinu áður en hún fór út í atvinnumennsku.
Það er ljóst að Valur, Þór/KA og Stjarnan munu öll sakna þessara markadrottninga sinn enda ekki auðvelt að fylla í skarð þeirra.
Markadrottningar horfnar á braut
- Margrét Lára Viðarsdóttir - hætt
- 15 mörk í 17 leikjum í fyrra
- 207 mörk í 143 leikjum í úrvalsdeild kvenna
- Harpa Þorsteinsdóttir - hætt
- 8 mörk í 13 leikjum sumarið 2018 (Barneignarfrí í fyrra)
- 181 mark í 252 leikjum í úrvalsdeild kvenna
- Sandra Stephany Mayor - farin aftur til Mexíkó
- 11 mörk í 15 leikjum í fyrra
- 57 mörk í 68 leikjum í úrvalsdeild kvenna