Guðrún Brá Björgvinsdóttir, úr Golfklúbbnum Keili, tók gullið í kvennaflokki á Golfbúðamótinu sem fór fram á Leirunni um helgina en mótið er annað mótið í stigamótaröð GSÍ.
Guðrún Brá var í öðru sæti eftir fyrstu tvo hringina en í dag spilaði hún á sex höggum yfir pari og það dugði henni í toppsætið. Hún endaði samtals á níu yfir pari.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir leiddi eftir fyrstu tvo hringina en hún náði sér alls ekki á strik í dag. Hún spilaði á ellefu höggum yfir pari og endaði á þrettán höggum yfir pari, í fjórða sætinu.
Saga Traustadóttir, úr GR, lenti í 2. sætinu. Hún endaði tveimur höggum á eftir Guðrúnu Brá en Ragnhildur Kristinsdóttir endaði í þriðja sætinu.