Þróttur teflir fram nýjum leikmanni í Árbænum í Pepsi Max deild kvenna í kvöld þegar hin bandaríska Morgan Goff spilar sinn fyrsta leik með liðinu.
Morgan Goff er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað á miðjunni og í vörn. Hún kynnti sjálfan sig á Twitter síðu Þróttar sem miðvörð. Hún verður 23 ára í desember og 173 sentimetrar á hæð.
Morgan Goff spilaði með University of North Carolina í bandaríska háskólafótboltanum á árunum 2016 til 2019.
Þróttarar kynntu Morgan Goff á Twitter síðu sinni í dag eins og sjá má hér fyrir neðan.
Um leið og við minnum á leik Fylkis og Þróttar á morgun í @pepsimaxdeildin á Wurth vellinum kl 19.15 fáum við að kynnast fjórða og síðasta erlenda leikmanni Þróttar, Morgan Goff sem mun spila í vörn og á miðjunni og í treyju númer 10:#Lifi pic.twitter.com/nPiIHPBvZr
— Þróttur (@throtturrvk) June 22, 2020
„Ég heiti Morgan Goff og er frá Dunn í Norður-Karólínu. Ég spila í treyju númer tíu hjá Þrótti og verð miðvörður. Ég er mjög spennt fyrir þessu tímabili og komið endilega og styðjið okkur. Lifi Þróttur,“ sagði Morgan Goff.
Þróttur hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum með minnsta mun, fyrst 4-3 á móti ÍBV út í Eyjum og svo 2-1 á móti Íslandsmeisturum Vals í fyrsta heimaleik sínum.
Morgan Goff er fjórði erlendi leikmaðurinn í liði Þróttar en fyrir voru bandaríski varnarmaðurinn Mary Alice Vignola, ástralski miðjumaðurinn Laura Hughes og bandaríski sóknarmaðurinn Stephanie Mariana Ribeiro.
Leikur Fylkis og Þróttar verður sýndur beint á Stöð 2 Sport en umferðin verður svo gerð upp í Pepsi Max mörkum kvenna á fimmtudagskvöldið. Útsendingin frá leiknum í kvöld hefst klukkan 19.05.