Íslenski boltinn

Um slaka er­lenda leik­menn: Ef þeir eru ekki af­gerandi þá takk og bless

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir fór mikinn í Pepsi Max Mörkunum í gærkvöld.
Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir fór mikinn í Pepsi Max Mörkunum í gærkvöld. Mynd/Stöð 2 Sport

Það var mikill hiti í Pepsi Max Mörkunum í gær þegar erlendir leikmenn deildarinnar voru ræddir. Innslagið má sjá í heild sinni í spilaranum neðst í fréttinni.

„Nú erum við með útlendingaa í FH, alls ekki nógu góða finnst mér,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þáttastjórnandi. Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, annar af sérfræðingum þáttarins í gær, greip orðið.

„Þær hafa ekkert sýnt finnst mér, önnur skoraði jú þetta mark á móti Þór/KA. Fyrir mér ertu bara ekki að sækja útlending sem er miðlungs leikmaður í þessari deild. Frekar skaltu þá spila ungum og efnilegum leikmanni sem þú getur gert að félagsmanni og liðsmanni til lengri tíma. Fyrir mér er þetta bara sóun.“

„Þú ert að taka eitt ár af einhverjum leikmanni,“ svaraði Helena.

„Þú ert að taka átt ár í þróun af einhverjum leikmanni, fyrir ekki meira en þetta. Ef þú færð einhverja eins og Mary Alice [Vignola] í Þrótti R. eða Chloé Lacasse [sem skoraði 62 mörk fyrir ÍBV frá 2015-2019] þá er það flott. Ég er bara á því að ef þeir útlendingar sem hingað koma eru ekki að standa sig, ef þeir eru ekki afgerandi þá takk og bless,“ sagði Bára Kristbjörg í kjölfarið.

Bára telur þó að Þróttur Reykjavík og Selfoss hafi nælt í góða erlenda leikmenn og að í raun sé ekki hægt að dæma ÍBV þar sem þar þurfi ákveðið magn erlendra leikmanna einfaldlega til að ná í lið.

Helena telur að oft sé góðmennska eina ástæða fyrir að leikmenn séu ekki látnir pakka í töskur og sendir heim.

„Nei við getum ekki sent hana heim, það er svo ljótt af okkur,“ sagði Helena kímin. „Eins og það verði að standa við samning í einhverri góðgerðastarfsemi.“

„Hinir hæfustu komast af, ef þú ert að fá útlending og hún er ekki að standa sig þá bara takk fyrir að koma, farðu heim. Þetta er bara mín skoðun varðandi þróun íslenskra leikmanna, þú þarft að vera afgerandi útlendingur til að taka sætið af íslenskum leikmanni,“ sagði Bára að endingu.

Klippa: Slakir útlendingar í Pepsi Max deildinni

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×