Knattspyrnusamband Íslands fékk engan fyrirvara um þau tilmæli sem íþróttahreyfingunni er nú gert að fara eftir, þess efnis að kappleikjum fullorðinna skuli frestað um viku, og starfsfólk sambandsins ræður nú ráðum sínum.
„Þetta eru reglur sem taka gildi í hádeginu á morgun,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, og því ættu leikir í Mjólkurbikar karla, 2. og 3. deild, sem fara áttu fram í kvöld að verða leiknir.
Bikarleikur Vals og ÍA átti að fara fram á morgun, auk leikja í neðri deildum, og eftir verslunarmannahelgi var mikill fjöldi leikja á dagskrá í öllum deildum sem nú virðist þurfa að fresta.
Varðandi Covid-19 mál, framhald móta og annað. Það er að mörgu að hyggja og margt að skoða. KSÍ er í sambandi við hagsmunaaðila. Ákvarðanir teknar og gefnar út eins fljótt og hægt er.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) July 30, 2020
„Við eigum eftir að fara betur yfir stöðuna og skoða hvað þetta þýðir fyrir okkur. Við reynum að meta þetta eins vel og við getum og svo verða teknar þær ákvarðanir sem þarf að taka,“ segir Klara, sem var eins og flestir aðrir nýbúin að fá fréttirnar um tilmæli heilbrigðisráðherra. Hún vildi ekki fullyrða að orðið yrði við tilmælunum um frestun allra leikja fullorðinna þar til í fyrsta lagi 10. ágúst.
„Ég tek ekki ákvörðun um það ein og sér, og mótanefnd þarf að fara yfir málið.“
Svigrúm til frestana er ekki mikið, sérstaklega í tólf liða Pepsi Max-deild karla. Þar stendur til að spila fram til 31. október en lið Stjörnunnar, sem fyrr í sumar fór í tveggja vikna sóttkví, átti til að mynda að spila sjö deildarleiki í ágúst.