Atvinnukylfingarnir Axel Bóasson, Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús eru ekki meðal efstu þriggja kylfinga eftir fyrsta hringinn á Íslandsmótinu í golfi. Mótið fer fram á Hlíðavelli í Mosfellsbæ að þessu sinni.
Sem stendur eru þeir Tómas Eiríksson Hjaltested og Aron Snær Júlíusson jafnir í efsta sætinu en þeir léku hring dagsins á þremur höggum undir pari. Þar á eftir koma þeir Viktor Ingi Einarsson. Rúnar Arnórsson og Sverrir Haraldsson en þeir léku hring dagsins á tveimur höggum undir pari.
Staða efstu kylfinga í karlaflokki á 1. degi Íslandsmótsins í golfi 2020. https://t.co/D9IP2YEXdm pic.twitter.com/2mUECwFYE2
— Golfsamband Íslands (@Golfsamband) August 6, 2020
Axel Bóasson, Golfklúbbnum Keili, átti ágætis hring í dag og er enn til alls líklegur. Axel fór hringinn á einu höggi undir pari en tvöfaldur skolli á á 4. holu kostaði hann í dag. Annars lék hann nokkuð stöðugt golf.
Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús – sem var talinn einkar sigurstranglegur fyrir mót – áttu ekki góðan hring í dag. Báðir léku á þremur höggum yfir pari og þurfa því spýta í lófana ætli þeir sér að ná efstu mönnum.
Kristófer Karl Karlsson, klúbbsmeistari Mosfellsbæjar, var í góðum málum framan af hring sínum í dag og stefndi í að hann yrði jafn efstu mönnum. Hann fékk hins vegar þrjá skolla á síðustu fjórum holum sínum og endaði hring dagsins því á pari.
Stöðuna á mótinu – í karlaflokki – má sjá inn á vef Golfsambandsins.