Klaustur bar í Kirkjustræti mun breyta um nafn á árinu sem er að hefjast og kveðja hið gamla. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu barsins þar sem barinn boðar breytingar og segist „horfa í átt til framtíðar“.
Barinn kom sér rækilega á kortið eftir að upptökur af samtali þingmanna Miðflokksins voru birtar í fjölmiðlum. Samræðurnar áttu sér einmitt stað á Klaustur bar og hefur alla tíð yfirleitt verið talað um það sem Klaustursmálið. Nú er hins vegar kominn tími á nýtt nafn og tími Klaustursnafnsins liðinn.
Stuttu eftir að upptökurnar birtust í fjölmiðlum jókst aðsókn á barinn að sögn aðstandenda staðarins. C. Lísa Óskarsdóttir, rekstrarstjóri, sagði marga gesti hafa grínast með málið og meðal annars beðið um „einn Sigmund Davíð“ og spurt hvar hljóðnemar væru á staðnum. Íris Dögg Ómarsdóttir, framkvæmdastjóri Kvosarinnar, hótelsins sem rekur Klaustur, sagði málið líklega gleymast seint.
