Vladimir Ashkenazy, heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hefur ákveðið að draga sig í hlé frá öllu tónleikahaldi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sinfóníuhljómsveitinni. Þar segir að hinn 82 ára gamli Ashkenazy hefur verið meðal fremstu tónlistarmanna heims í meira en hálfa öld.
Samstarf Ashkenazys og Sinfóníuhljómsveitar Íslands spannar meira en hálfa öld. Hann kom fyrst fram með hljómsveitinni árið 1964 í píanókonserti nr. 3 eftir Rakhmanínov, og stjórnaði henni í fyrsta sinn árið 1971, í píanókonserti eftir Mozart með Daniel Barenboim í einleikshlutverki.
Hann hefur verið heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2002 og hefur stjórnað henni í mörgum meistaraverkum tónbókmenntanna, meðal annars Stríðssálumessu Brittens, Das Lied von der Erde eftir Mahler, og Níundu sinfóníunni og Missa solemnis eftir Beethoven.

Þá flutti hann allar sinfóníur Brahms með hljómsveitinni í sérstökum „Brahms-hring“ á árunum 2014–17. Ashkenazy gegndi lykilhlutverki í því að hvetja ráðamenn til byggingar tónlistarhúss í Reykjavík og stjórnaði opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu vorið 2011.
Síðast kom hann fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tólf tónleikum í Japan í nóvember 2018. Ashkenazy var sæmdur stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands í apríl 2018 fyrir framlag sitt til íslensks tónlistar- og menningarlífs.
Hann vakti fyrst alþjóðlega athygli þegar hann hlaut önnur verðlaun í Chopin-keppninni í Varsjá árið 1955, og hann hreppti síðan fyrstu verðlaun í Queen Elisabeth-keppninni í Brussel 1956 og Tsjajkovskíj-keppninni í Moskvu 1962. Allar götur síðan hefur hann ferðast heimshorna á milli ásamt eiginkonu sinni, Þórunni Jóhannsdóttur, og haldið tónleika ásamt fremsta tónlistarfólki heims.
„Á þessum tímamótum er hljóðfæraleikurum og starfsfólki Sinfóníuhljómsveitar Íslands efst í huga þakklæti fyrir allt það óeigingjarna starf sem Vladimir Ashkenazy hefur unnið í þágu íslensks tónlistarlífs. Hann hefur verið óþreytandi talsmaður hljómsveitarinnar á alþjóðlegum vettvangi, fengið til samstarfs við hana tónlistarfólk á heimsmælikvarða og unnið að framgangi hennar með hljóðritunum og nú síðast í viðamikilli tónleikaferð til Japans. Ashkenazy er einstakur listamaður, hógvær og lítillátur en um leið vandvirkur og djúpur í list sinni, vinur menningar og mennsku í öllum sínum birtingarmyndum. Við óskum honum og Þórunni alls hins besta á komandi árum með innilegu þakklæti fyrir ómetanlegt samstarf,“ er haft eftir Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar.