Lionel Messi tryggði Börsungum sigur í fyrsta leik Quique Setién

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Setién byrjar feril sinn hjá Barcelona á sigri.
Setién byrjar feril sinn hjá Barcelona á sigri. vísir/getty

Quique Setién getur þakkað Lionel Messi fyrir sigur í sínum fyrsta leik sem þjálfari Barcelona. Messi skoraði eina markið í 1-0 sigri liðsins gegn Granada á Camp Nou.

Það var vitað fyrir fram að Barcelona yrði mikið með knöttinn í kvöld enda er það venjan þegar Barcelona er á heimavelli. Þá var Setíen ráðinn því hann er mikill aðdáandi tiki-taka fótboltans sem Pep Guardiola gerði frægan fyrir hartnær áratug.

Eftir að hafa verið með knöttinn 82% í fyrri hálfleik þá hafði Börsungum samt ekki tekist að brjóta ísinn og staðan markalaus í hálfleik. Ekki voru gestirnir líklegri til að halda boltanum sín á milli þegar German Sanchez fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 69. mínútu leiksins.

Það var svo sjö mínútum síðar sem heimamönnum tókst loks að brjóta ísinn en Arturo Vidal átti þá snyrtilega hælsendingu á áðurnefndan Lionel Messi sem skoraði með hægri fæti, hans 433. deildarmark á ferlinum. Staðan orðin 1-0 og reyndust það lokatölur leiksins.

Barcelona hoppar þar með aftur upp á topp deildarinnar þar sem liðið er með betri markatölu en Real Madrid. Bæði lið eru með 43 stig þegar 20 umferðum er lokið.





Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira