KR og Valur mætast í kvöld í úrslitaleik Reykjavíkurmóts meistaraflokks karla en leikurinn fer fram á Origovellinum á Hlíðarenda og hefst klukkan 19.00.
Leikurinn átti að fara fram í Egilshöllinni en var færður út á Valsvöllinn á Hlíðarenda að ósk liðanna sem eru ósátt með gervigrasið í Egilshöllinni.
Þetta er í fyrsta sinn í níu ár sem þessir erkifjendur og nágrannar mætast í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins eða síðan að Valur vann 1-0 sigur á KR í úrslitaleiknum 2011. Guðjón Pétur Lýðsson skoraði þá sigurmarkið á 59. mínútu leiksins.
KR-ingar eiga titil að verja eftir 3-1 sigur á Fylki í úrslitaleiknum í fyrra. Pablo Punyed, Kennie Knak Chopart og Björgvin Stefánsson komu KR-ingum þá í 3-0 á fyrstu 39 mínútum leiksins.
Valsmenn unnu Reykjavíkurmótið síðast árið 2017 þegar sjálfsmark Fjölnismanna réði úrslitum í leik Vals og Fjölnis. Valur vann einnig Reykjavíkurmótið árið 2015.
Undanúrslitin fóru fram í Egilshöll á fimmtudag. Staðan hjá KR og Víking R. eftir venjulegan leiktíma var 1-1. Óttar Magnús Karlsson kom Víking R. yfir á sjöttu mínútu af vítapunktinum, en Ægir Jarl Jónasson jafnaði leikinn á 75. mínútu. KR voru svo sterkari í vítaspyrnukeppninni og unnu hana 5-3.
Í síðari leiknum vann Valur svo 1-0 sigur gegn Fjölni með marki frá Kaj Leo Í Bartalsstovu.
Úrslitaleikir Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu síðustu ár:
2020: KR-Valur ?-?
2019: KR-Fylkir 3-1
2018: Fjölnir-Fylkir 3-2
2017: Valur-Fjölnir 1-0
2016: Leiknir-Valur 4-1
2015: Valur-Leiknir 3-0
2014: Fram-KR 1-1 (5-4 í vítakeppni)
2013: Leiknir-KR 3-2
2012: Fram-KR 5-0
2011: Valur-KR 1-0
Fyrsti úrslitaleikur KR og Vals í níu ár
