Fram vann Hauka að Ásvöllum með sex marka mun í dag, 28-22. Þá vann KA/Þór 18 marka sigur á botnliði Olís deildar kvenna Aftureldingu í dag. Lokatölur á Akureyri 30-12.
Þægilegt hjá Fram á Ásvöllum
Framstúlkur voru með yfirhöndina nær allan leikinn í dag. Þær náðu sex marka forystu í fyrri hálfleik og staðan 16-10 í hálfleik. Gestirnir úr Safamýri náðu mest níu marka forystu í síðari hálfleik en unnu á endanum sex marka sigur.
Lokatölur 28-22 og Fram því komið með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar. Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fram í leiknum og Þórey Rósa Stefánsdóttir sex. Hjá Haukum var Berta Rut Harðardóttir markahæst með fimm mörk.
Haukar eru í 5. sæti deildarinnar sem stendur.
Afturelding átti aldrei möguleika
Heimastúlkur voru fljótlega komnar með sex marka forystu. Sú forysta var orðin 12 mörk í hálfleik, staðan þá 18-6. Í þeim síðari var sama upp á teningnum en KA/Þór hafði öll völd á vellinum.
Fór það svo að þær unnu einkar öruggan 18 marka sigur í dag, lokatölur 30-12. Rakel Sara Elvarsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir skoruðu átta mörk hvor fyrir KA/Þór og þá varði Matea Lonac 19 skot í markinu.
Hjá Aftureldingu voru Anamaria Gugic og Katrín Helga Davíðsdóttir með þrjú mörk hvor.
KA/Þór er í 6. sæti deildarinnar með 10 stig en Afturelding situr sem fastast á botninum án stiga.
Tíundi sigur Fram í röð | KA/Þór fór illa með Aftureldingu
