Handbolti

Topplið Fram og Vals drógust saman og ÍBV mætir Haukum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Vals og Fram fyrr í vetur. Karen Knútsdóttir brýst hér í gegnum vörn Vals.
Frá leik Vals og Fram fyrr í vetur. Karen Knútsdóttir brýst hér í gegnum vörn Vals. Vísir/Bára

Íslands- og bikarmeistarar Vals mæta toppliði Fram í undanúrslitum Coca Cola bikars kvenna í handbolta en dregið var í undanúrslitaleikina í Höllinni í Smárabíói í hádeginu.

Stórleikurinn karlamegin er leikur ÍBV og Hauka en þessi félög hafa spilað marga risaleiki á síðustu árum. Afturelding mætir Stjörnunni í hinum leiknum hjá körlunum.

Haukar eru á toppnum í Olís deild karla en hafa ekki byrjað vel eftir áramót. Eyjamenn eru sex sætum neðar en þeir hafa bitið frá sér að undanförnu.

Ekkert liðanna í pottinum karlamegin komust svona langt í fyrra en Eyjamenn unnu bikarinn fyrir tveimur árum eftir sigur Haukum í undanúrslitum og Fram í úrslitaleiknum. ÍBV og Haukar mætast því aftur í undanúrslitunum í ár.

Fram og Valur hafa verið í nokkrum sérflokki í Olís deild kvenna í vetur og þau mætast í undanúrslitunum í ár. KA/Þór og Haukar spila í fyrri undanúrslitaleiknum.

Valur vann þriggja marka sigur á Fram í bikarúrslitaleiknum í fyrra og Valur vann síðan Fram einnig í lokaúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn.

Framliðið hefur aftur á móti þriggja stiga forystu á Val í Olís deildinni í dag. KA/Þór og Haukar eru aftur á móti jöfn að stigum í 5. og 6. sæti deildarinnar.

Undanúrslit Coca Cola bikars karla 2019-20:

18.00 ÍBV - Haukar

20.30 Afturelding - Stjarnan

Undanúrslitaleikirnir í Coca Cola bikar karla fara fram fimmtudaginn 5. mars og úrslitaleikurinn er síðan laugardaginn 7. mars.

Undanúrslit Coca Cola bikars kvenna 2019-20:

18.00 KA/Þór - Haukar

20.30 Valur - Fram

Undanúrslitaleikirnir í Coca Cola bikar kvenna fara fram miðvikudaginn 4. mars og úrslitaleikurinn er síðan laugardaginn 7. mars.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×