Handbolti

Þrjár landsliðskonur Framliðsins framlengja á sama degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framstelpur hafa verið frábærar í vetur og Framarar hafa lagt grunninn að áframhaldandi velgengni með nýjum samningum.
Framstelpur hafa verið frábærar í vetur og Framarar hafa lagt grunninn að áframhaldandi velgengni með nýjum samningum. Vísir/Bára

Landsliðskonurnar Ragnheiður Júlíusdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir hafa allar skrifað undir nýjan tveggja ára samning við kvennalið Fram.

Framarar segja frá þessum frábæru fréttum fyrir kvennalið félagsins inn á heimasíðu sinni í dag. Ragnheiður, Þórey Rósa og Karen eru algjörir lykilmenn í Framliðinu sem er á toppnum í Olís deild kvenna og er komið í undanúrslit Coca Cola bikarsins.

Ragnheiður Júlíusdóttir er uppalin í Fram og hefur verið meðal bestu leikmanna efstu deildar kvenna síðan hún hóf sinn feril í meistaraflokki 2013. Hún er á sínu sjöunda keppnistímabili með Fram og hefur skorað yfir 1000 mörk fyrir Fram. Hún er markahæsti leikmaður liðsins í Olís deildinni í vetur með 102 mörk í 17 leikjum eða sex mörk að meðaltali í leik.

Þórey Rósa Stefánsdóttir kom til Fram frá ÍR árið 2005 og lék með Framliðinu þar til árið 2009 er hún hélt utan í atvinnumennsku. Hún lék með Emmen í Hollandi til ársins 2011 en fór síðan til VFL Oldenburg í Þýskalandi. Þórey hélt síðan til Danmerkur og lék með Team Tvis Holstebro til 2013. Næstu fjögur árin lék hún síðan  með Vipers Kristiansand í Noregi. Þórey Rósa kom aftur heim til Fram árið 2017. Þórey Rósa var valin handknattleikskona ársins bæði árið 2017 og 2018 og er alger lykilmaður í landsliði Íslands og annar fyrirliða landsliðsins.

Karen Knútsdóttir er uppalin í Fram og lék með liðinu þar til hún hélt í atvinnumennsku árið 2011. Fyrst fór hún til Blomberg/Lippe í Þýskalandi en svo til Danmerkur þar sem hún lék með Sönderjyske. Árið 2014 hélt hún til Frakklands þar sem hún lék með liði Nice við góðan orðstír. Karen var valin handknattleikskona ársins árið 2011 og 2014 og hefur verið fyrirliði landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×