Umfjöllun og viðtöl: Valur - Fram 24-28 | Fram með níu fingur á deildarmeistaratitilinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ragnheiður Júlíusdóttir var frábær í liði Fram í dag.
Ragnheiður Júlíusdóttir var frábær í liði Fram í dag. vísir/bára

Fram er komið neð níu fingur á deildarmeistaratitilinn eftir fjögurra marka sigur á Íslandsmeisturum Vals að Hlíðarenda í dag. Lokatölur 28-24 Framstúlkum í vil í fjörugu uppgjöri toppliða Olís deildar kvenna.

Fram vann í dag fjögurra marka sigur á Val í Olís-deild kvenna í Origo-Höllinni í dag. Leikurinn var jafn og spennandi mest allan tímann, en Þegar uppi var staðið voru það Framstúlkur sem voru sterkari aðilinn og kláruðu góðan sigur í toppslag deildarinnar. Fram situr því enn á toppi deildarinnar með fimm stiga forskot á Val þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir.

Fram byrjaði leikinn betur og tóku fljótt forystuna. Eftir rúmlega fimm mínútna leik var munurinn orðinn þrjú mörk, staðan 1-4 gestunum í vil. Sá munur hélst lengi vel, Valskonur áttu erfitt með að koma boltanum í netið. Valskonur skutu mikið í stöng og slá og einnig var Hafdís að verja ágætlega í markinu.

Þegar 20 mínútur voru liðnar var munurinn enn þá þrjú mörk, 6-9, en þá byrjaði Valur að saxa á. Eftir mikla þrautseigju heimamanna náðu Valskonur loksins að jafna leikinn 12-12 þegar um tvær mínútur voru eftir af hálfleiknum. Liðin skoruðu svo sitthvort markið og staðan því 13-13 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði svipað og sá fyrri. Fram náði góðum kafla og náði aftur þriggja marka forskoti þegar um fimm mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Valur átti svo nokkra góða spretti þar sem að þær gerðu sig líklegar til að jafna leikinn á ný, en þegar á hólminn var stigið, gekk það ekki upp. Þegar tæpar níu mínútur voru eftir af leiknum var staðan 22-23, Fram í vil.

Nær komust Valskonur ekki og Fram gekk á lagið og kláraði þennan leik nokkuð örugglega 24-28.

Af hverju vann Fram?

Fram var heilt yfir betri aðilinn í leiknum, og vörnin þeirra stóð oft á tíðum mjög vel, þá sérstaklega í seinni hálfleik. Valur átti oft í miklum erfiðleikum með að finna opnanir á vörn Vals sem leiddi til þess að þær voru að fara í erfið skot. Það leiddi svo til þess að markvarsla Fram var líka góð.

Hverjir stóðu upp úr?

Ragnheiður Júlíusdóttir fór fyrir sóknarleik Fram eins og svo oft áður. Hún skoraði níu mörk úr 15 skotum, þar af eitt víti. Markverðir Fram áttu fínan dag. Katrín Ósk Magnúsdóttir kom inn á um miðbik fyrri hálfleiks og var með 39% vörslu.

Í liði Vals var Lovísa Thompson markahæst með 10 mörk úr 17 skotum, þar af eitt víti. Íris Björk Símonardóttir var hins vegar líklega besti leikmaður Vals. Hún var með 15 varin skot og þar af voru nokkur dauðafæri. Það dugði þó ekki til.

Hvað gekk illa?

Valskonum gekk illa að finna glufur á vörn Fram. Of oft voru þær að taka erfið skot þegar að höndin var komin upp sem leiddi til góðrar markvörslu Fram. Valskonur áttu líka full mikið af skotum í slá og stöng þegar að þær voru komnar í ákjósanleg færi. Það er erfitt að vinna toppliðið þegar að þú ert ekki að nýta færin þín.

Hvað gerist næst?

Valskonur fara norður í næstu umferð þar sem að þær mæta KA/Þór. KA/Þór er í harðri baráttu um fjórða sætið og því má búast við hörkuleik fyrir norðan.

Fram fær Stjörnuna í heimsókn í næsta leik. Ef að mér reiknast rétt til, geta Framstúlkur tryggt sér deildarmeistaratitilinn með stigi í þeim leik. Ég trúi ekki öðru en að þær ætli sér að gera einmitt það á heimavelli.

Ágúst sagði Fram að hefði átt sigurinn, sem og deilarmeistartitilinn, skilið.Vísir/Bára

Ágúst: Fram á bara skilið að vera deildarmeistari

„Við héldum í við þær í 40-45 mínútur, en erum að gera okkur sekar um óþarfa feila í sókninni, erum að skjóta illa og erum með tuttugu og eitthvað skotklikk,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, eftir tapið í dag.

„Það er bara dýrt á móti Frömmurum.“

Ágúst segir að þessi leikur hafi gert það að verkum að Valur sé búið að missa af deildarmeistaratitlinum.

„Já já, hann er farinn, það er ljóst. Fram á bara skilið að vera deildarmeistari, þær eru búnar að vera besta liðið í vetur og mest sannfærandi. Þær hafa spila bara virkilega vel, enda með góða leikmenn og góðan þjálfara þannig að þær eiga það bara virkilega skilið.“

Ágúst talaði svo um það að sínir leikmenn hafi oft á tíðum gert sér erfitt fyrir í leiknum.

„Það er svo sem ýmislegt sem að hefði betur mátt fara en það er líka margt sem vara bara gott hjá okkur í dag. Við þurfum fyrst og fremst bara að fá framlag frá fleiri leikmönnum og við eigum nokkra leikmenn inni. Við þurfum bara hægt og rólega að bæta okkar leik og þá verðum við í góðu standi í úrslitakeppninni,“ sagði Ágúst að lokum.



Stefán var aðeins hressari að leik loknum en á þessari mynd.Vísir/Bára

Stefán Arnarson: Þegar að Gústi klárar lagið, þá er frábært að hlusta á hann

„Ég er bara ótrúlega ánægður. Okkar markmið er að vinna þessa deild, það er markmið númer eitt og nú þurfum við eitt stig í næstu þrem leikjum þannig að ég er mjög ánægður að vera kominn í þessa stöðu,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram eftir sigurinn í dag.

Stefán talaði svo um hvað það var sem að skóp þennan sigur í dag. „Við spiluðum heilt yfir mjög vel, góður varnarleikur hjá okkur og markvarslan kom þegar fór að líða á leikinn. Sóknarleikurinn var bara vel upp settur og ég er bara virkilega ánægður með þennan leik hjá okkur á móti mjög sterku Valsliði.

Stefán var ekki alveg sammála Ágústi um að deildarmeistaratitillinn væri í höfn.

„Við erum komin í góða stöðu en eins og Gústi veit, því að Gústi er góður söngvari, þá verður hann að klára lagið. Þegar að Gústi klárar lagið, þá er frábært að hlusta á hann og ég vona að okkur takist að klára þetta,“ sagði Stefán léttur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira