Handbolti

Bjarki með 14 mörk | Langmarkahæstur í Þýskalandi

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarki Már Elísson hefur verið funheitur í vetur með Lemgo.
Bjarki Már Elísson hefur verið funheitur í vetur með Lemgo. vísir/epa

Bjarki Már Elísson hefur átt marga stórleiki í Þýskalandi í vetur en aldrei skorað fleiri mörk en í kvöld, í 31-25 sigri Lemgo á botnliði Nordhorn.

Bjarki skoraði 14 mörk úr 16 skotum í leiknum, þar af sjö úr vítum, samkvæmt heimasíðu þýsku deildarinnar, eða rétt tæplega helming marka Lemgo. Upphaflega stóð að hann hefði skorað 15 mörk en því hefur verið breytt á leikskýrslu. Bjarki hefur þar með skorað 215 mörk á leiktíðinni og er langmarkahæstur í deildinni, nú með 22 marka forskot á næsta mann, Hans Lindberg.

Bjarki hefur nú skorað að minnsta kosti 10 mörk í alls 10 leikjum í vetur. Að meðaltali skorar hann 3.-4. hvert mark Lemgo.





Lemgo er með 27 stig líkt og Wetzlar í 8.-9. sæti eftir að hafa ekki tapað leik á árinu 2020. Nordhorn, undir stjórn Geirs Sveinssonar, er með fjögur stig eftir 27 leiki.

Ragnar Jóhannsson og Arnór Þór Gunnarsson skoruðu sitt markið hvor fyrir Bergischer í 28-26 tapi gegn Erlangen á útivelli. Erlangen jafnaði þar með Bergischer að stigum en liðin eru með 20 stig hvort í 13.-14. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×