Þorsteinn Már Ragnarsson, leikmaður Stjörnunnar, er einn þeirra um 300 Íslendinga sem eru í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Frá þessu er greint á Fótbolta.net.
Þar segir að Þorsteinn hafi verið á vinnufundi með manninum sem greindist fyrstur með kórónuveiruna á Íslandi.
Þorsteinn þarf því að vera í sóttkví í tvær vikur og getur ekki æft með liðsfélögum sínum í Stjörnunni á meðan.
Í frétt Fótbolta.net segir að ekkert bendi til þess að Þorsteinn sé með kórónuveiruna.
Þegar þetta er skrifað hafa þrír greinst með kórónuveiruna á Íslandi og um 300 eru í sóttkví.
Næsti leikur Stjörnunnar er gegn Val í Lengjubikarnum á miðvikudaginn. Á laugardaginn mætir Stjarnan svo gömlu félögum Þorsteins í Víkingi Ó.
