Íslenski boltinn

Þróttarar með óvæntan útisigur og dramatík á Ísafirði

Ísak Hallmundarson skrifar
Þróttarar unnu óvænt í Breiðholti.
Þróttarar unnu óvænt í Breiðholti. fréttablaðið/ernir

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í dag. Þróttarar eru komnir í réttan gír eftir dapra byrjun á mótinu á meðan Leiknismönnum fatast flugið. Vestri og Víkingur Ólafsvík gerðu jafntefli í hörkuleik.

Leiknir tók á móti Þrótti á DomusNova-vellinum í Breiðholti. Markalaust var í hálfleik en Vuk Oskar Dimitrijevic kom Leikni yfir í upphafi seinni hálfleiks á 47. mínútu. Gleði Leiknismanna var skammlíf, Gunnlaugur Hlynur Birgisson jafnaði metin fyrir Þróttara á 55. mínútu. 

Á 79. mínútu skoraði Oliver Heiðarsson fyrir Þrótt það sem reyndist sigurmarkið. Þróttarar að ná sér á strik og hafa unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum eftir aðeins eitt stig úr fyrstu átta leikjunum. Leiknir sem var á toppnum fyrir ekki svo löngu tapar stigum annan leikinn í röð.

Það var boðið upp á háspennu þegar Vestri og Víkingur Ólafsvík mættust á Ísafirði. Vestri leiddi með tveimur mörkum í hálfleik eftir mörk frá Ivo Öjhage og Pétri Bjarnasyni. Ólsarar komu til baka og skoruðu tvö mörk á innan við tveimur mínútum, á 67. og 68. mínútu og voru þar að verki Gonzalo Zamorano og Harley Willard. 

Ivo Öjhage fékk síðan rautt spjald á 77. mínútu og á 82. mínútu kom Harley Willard Ólafsvík yfir. Seigir Vestfirðingar náðu hinsvegar manni færri að krækja í eitt stig úr leiknum þegar Daníel Agnar Ásgeirsson jafnaði á þriðju mínútu uppbótartíma og lokatölur í leiknum 3-3 jafntefli.

Stöðutöfluna í deildinni má skoða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×