Íslenski boltinn

Hall­bera: Hann getur verið feginn að klára leikinn með 11 leik­menn

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Hallbera Guðný Gísladóttir í leik með Val.
Hallbera Guðný Gísladóttir í leik með Val. vísir/bára

Hallbera Guðný Gísladóttir, fyrirliði Vals, var ánægð með sigurinn gegn Þrótti í kvöld og sagði Val hafa fundið taktinn eftir brösulega byrjun fyrsta korterið.

„Við byrjuðum ekki sérstaklega vel. Þær komumst full auðveldlega í gegnum pressuna og Sandra í markinu gerði vel í að halda okkur í leiknum fyrsta korterið. En eftir að við settum fyrsta markið á okkur þá fannst mér þetta aldrei vera spurning,“ sagði Hallbera en sigurinn í dag og tap Breiðabliks gegn Selfyssingum þýðir að aðeins tvö stig skilja nú á milli Vals og Breiðabliks sem situr á toppi deildarinnar.

Þetta var fyrstu stigin sem Breiðablik töpuðu og fyrstu mörkin sem liðið fékk á sig í sumar.

„Við vorum farnar að horfa of mikið á hvað Blikar voru að gera og ákváðum að taka þann pól í hæðina að einbeita að okkar leik. Þetta var ein umferð og hún spilaðist vel fyrir okkur en það eru fullt af stigum eftir í pottinum,“ sagði Hallbera.

Aðspurð um ummæli Nik Anthony, þjálfara Þróttar, um dómgæslu leiksins gaf Hallbera lítið fyrir það. Sérstaklega eftir að Elísbet Freyja virtist sparka viljandi í Hallberu á 78. mínútu en af einhverjum ástæðum sá dómarinn enga ástæðu til að sýna henni rauða spjaldið.

„Hún átti að fá rautt spjald. Hún setti sólann í lærið á mér þegar hún er dottin þannig ég held að hann [Nik Anthony] geti bara verið fegin að hafa klárað leikinn með 11 menn inn á,“ sagði Hallbera og hélt áfram.

„Ef þetta lið ætlar að spila hart þá þurfa þær að geta tekið því að það sé spilað hart á móti. Dómarinn dæmdi bara eins fyrir bæði lið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×