Varnarleikur, eða öllu heldur varnarleysi ÍA í leiknum gegn KR, var til umræðu í Pepsi Max stúkunni á mánudaginn.
Skagamenn töpuðu 4-1 fyrir KR-ingum í Pepsi Max-deild karla á sunnudaginn þar sem varnarleikur liðsins var ekki merkilegur eins og strákarnir í Pepsi Max stúkunni fóru yfir.
„Maður var bara pirraður að horfa á Skagann í þessum leik. Það er ekki hægt að segja annað. Varnarleikur Skagamanna og markvörðurinn voru algjörlega úti á þekju og þetta er algjörlega óboðlegt í efstu deild,“ sagði Þorkell Máni Pétursson.
Árni Snær Ólafsson, markvörður og fyrirliði ÍA, átti alls ekki góðan leik á Meistaravöllum á sunnudaginn og hefur ekki leikið vel í sumar eins og farið var yfir í Pepsi Max stúkunni.
„Mér finnst hann hafa verið mjög mistækur í ár. Hverju er um að kenna er erfitt að segja. En svona mörk á maður ekki að fá á sig. Mér fannst hann líka eiga að gera betur í skallamarkinu hans Atla [Sigurjónssonar] því þetta var ekki fastur skalli,“ sagði Tómas Ingi Tómasson.
„Árni hefur verið mistækur á þessu tímabili eins og Skagavörnin og varnarleikur Skagamanna. Það þarf engan prófessor til að reikna það út. Við kíkjum bara á markatölu liðsins. Það skorar mikið en fær meira á sig,“ bætti Tómas Ingi við en ÍA hefur fengið á sig flest mörk allra liða í Pepsi Max-deildinni í sumar, eða 29 talsins.