Handbolti

Gunnar Magnússon: Þurfum að púsla okkur saman upp á nýtt

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Gunnar Magnússon er orðinn þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Magnússon er orðinn þjálfari Aftureldingar. VÍSIR/DANÍEL

„Ég er ótrúlega ánægður með að fá stigin, tvö. Þetta snýst bara um í byrjun að ná í stigin og það gerðum við í kvöld. Ég er virkilega ánægður með strákana að klára þetta og karakterinn, að koma hérna og ná í þessi tvö stig,“ sagði Gunnar Magnússon, nýr þjálfari Aftureldingar, eftir tveggja marka sigur á Þór Akureyri í Mosfellsbæ í kvöld, 24-22.

Afturelding átti erfitt uppdráttar sóknarlega í fyrri hálfleik og náði til að mynda ekki að skora í u.þ.b. sjö mínútur. „Það er fyrst og fremst vegna þess að við erum búnir að vera að æfa allt sumarið, síðustu mánuði og alla æfingaleikina og allar æfingar með örvhenta skyttu sem dettur svo út,“ sagði Gunnar og vitnaði til meiðsla Birkis Benediktssonar.

„Við fáum ekki einu sinni hálfa mínútu í að undirbúa okkur án hans þannig ég vissi að það yrðu einhverjir hnökrar í sókninni, að setja inn rétthentan mann, það breytir tempóinu og breytir ýmsu. Ég er hrikalega ánægður með Þorstein Leó, kemur sterkur inn hægra megin og kemur með góð mörk. En ég vissi að þetta yrði basl sóknarlega og við áttum von á því.“

Birkir meiddist í gær og verður því frá í langan tíma. „Hann er með slitna hásin og það er auðvitað sorglegt fyrir hann. Hann er búin æfa vel í sumar og loksins búin að ná alvöru undirbúningstímabili og var komin í frábært stand þannig þetta er fyrst og fremst mjög leiðinlegt og sorglegt hans vegna að detta út og verða úti í töluverðan tíma.

Við þjöppum okkur saman og fáum þetta verkefni núna, að púsla okkur uppá nýtt og æfa okkur án hans. Við fáum viku til þess og komum vonandi aðeins betur slípaðir sóknarlega í næsta leik en hinsvegar var ég mjög ánægður með varnarleikinn í dag, hann var frábær, höndin komin upp nánast í hvert einasta skipti í seinni hálfleik. Ég er hrikalega ángæður með varnarleikinn,“ sagði Gunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×