Að mati Hjörvars Hafliðasonar hefur Aron Bjarnason verið besti leikmaður Pepsi Max-deildar karla í sumar.
Aron átti stórleik þegar Valur kjöldró Stjörnuna, 1-5, í toppslag á Samsung-vellinum í Garðabæ á mánudaginn. Hann skoraði tvö mörk, lagði upp eitt og fiskaði vítaspyrnu.
„Á undanförnum árum hafa Valsmenn verslað í Harrods meðan aðrir hafa verslað annars staðar. Eins og með að fá Aron Bjarnason. Mér finnst hann besti leikmaðurinn í þessu móti,“ sagði Hjörvar í Pepsi Max stúkunni í gær.
„Hann er frábær skotmaður og með allan þennan hraða. Gervigras hentar honum mjög vel.“
Aron kom til Vals í vor á láni frá Újpest í Ungverjalandi. Hann gekk í raðir Újpest frá Breiðabliki um mitt síðasta sumar. Auk Vals og Breiðabliks hefur hann leikið með ÍBV, Fram og Þrótti hér á landi.
Aron og félagar hans í Val hafa unnið níu leiki í röð og eru með átta stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildarinnar. Þeir mæta FH-ingum í stórleik í Kaplakrika klukkan 16:15 á morgun.