Madridingar sóttu þrjú stig á Nou Camp

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. vísir/Getty

Erkifjendurnir og spænsku stórveldin Barcelona og Real Madrid leiddu saman hesta sína á Nou Camp leikvangnum í Barcelona í dag en bæði lið töpuðu illa í deildinni um síðustu helgi.

Leikurinn byrjaði með látum því Federico Valverde kom Real Madrid yfir strax á 5.mínútu eftir undirbúning Karim Benzema. Heimamenn algjörlega steinsofandi í varnarleiknum og þægileg byrjun fyrir gestina staðreynd.

Börsungar voru þó fljótir að ranka við sér og jafna metin en það gerði ungstirnið Ansu Fati eftir undirbúning Lionel Messi og Jordi Alba.

Hinn 17 ára gamli Fati eignaði sér þar með met Real Madrid goðsagnarinnar Raul Gonzalez sem yngsti leikmaðurinn til að skora mark í El Clasico.

Staðan í leikhléi jöfn, 1-1. 

Eftir klukkutíma leik dró til tíðinda þegar Sergio Ramos féll í vítateig heimamanna eftir baráttu við Clement Llenglet. Dómari leiksins tók sér góðan tíma til að skoða atvikið og komst loks að þeirri niðurstöðu að dæma vítaspyrnu fyrir peysutog.

Ramos steig sjálfur á vítapunktinn og skoraði af öryggi.

Luka Modric kom inn af varamannabekknum og hann gulltryggði sigur gestanna með marki á lokamínútu venjulegs leiktíma. 

Real Madrid lyftir sér þar með í toppsæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 13 stig en Barcelona er strax lent sex stigum á eftir þar sem lærisveinar Ronald Koeman hafa 7 stig í 10.sæti en hafa reyndar leikið einum leik minna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira