Viðskipti innlent

Allar plastflöskur Coca-Cola á Íslandi úr endurunnu plasti á fyrsta ársfjórðungi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Áður er fyrsti ársfjórðungur 2021 er úti verða allar plastflöskur sem Coca-Cola á Ísland framleiðir verða úr endurunnu plasti. Forstjórinn segir hátt endurvinnsluhlutfall vera lykilatriði.
Áður er fyrsti ársfjórðungur 2021 er úti verða allar plastflöskur sem Coca-Cola á Ísland framleiðir verða úr endurunnu plasti. Forstjórinn segir hátt endurvinnsluhlutfall vera lykilatriði. Vísir/Getty/aðsend

Frá og með fyrsta ársfjórðungi 2021 verða allar plastflöskur, sem Coca-Cola á Íslandi framleiðir, úr 100% endurunnu plasti en við breytinguna mun notkun á nýju plasti á Íslandi minnka um 530 tonn. Forstjórinn segir fátt fara meira í taugarnar á honum en að sjá drykkjarumbúðir sem hann framleiðir úti á götu eða í fjörunni.

Coca-Cola, PepsiCo og Nestlé hafa verið ásökuð um að hafa náð litlum sem engum árangri í að draga úr plastnotkun og sögð vera þau þrjú fyrirtæki sem valda mestri plastmengun í heiminum þriðja árið í röð.  Þetta kemur fram á The Guardian í dag en samtökin „Break free from Plastic“ hafa nú greint frá niðurstöðum árlegrar úttektar á plastmengun.

Breytingin á við um öll vörumerki sem fyrirtækið framleiðir á Íslandi en það er einn stærsti matvælaframleiðandi landsins. Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca-Cola á Íslandi, var spurður hvað notkun á nýju plasti muni dragast mikið saman hér á landi við breytinguna.

„Hún minnkar talsvert mikið. Hún mun minnka um 530 tonn á ári, sem er talsvert. Þetta eru rúmlega 20 milljón flöskur sem við framleiðum á hverju ári og það munar um minna.“

Þróunin yfir í endurunnið plast er hluti af sjálfbærnistefnu CCEP og The Coca-Cola Company í Vestur-Evrópu, sem er undir yfirskriftinni „Áfram veginn“ (e. This is Forward) þar sem fyrirtækin heita því að tryggja að a.m.k. 50% af plastflöskunum verði úr endurunnu plasti.

Fyrirtækin hafa nú sett sér nýtt markmið en í því felst að engar plastflöskur verði framleiddar úr nýju plasti innan áratugs. Ísland verður ásamt Noregi, Svíþjóð og Hollandi fyrst fyrirtækjanna til að ná markmiðinu.

Einar segir að lykilatriði í hringrásarhagkerfinu sé að endurvinnsluhlutfallið sé hátt.

„Það sem skiptir öllu máli fyrir okkur er að fólk sé duglegt að skila plastflöskunum sem það notar og það er í raun og veru það sem gerir okkur kleift að fara í þessa breytingu. Íslendingar hafa verið mjög duglegir við að skila drykkjarumbúðum til endurvinnslunnar og endurvinnslan selur þessar drykkjarumbúðir til endurvinnslufyrirtækja sem gerir þeim kleift að endurnýta þær.“

Einar segir að neytendur krefjist í auknum mæli grænna og sjálfbærra lausna. Fyrirtæki á tímum sem þessum verði að koma til móts við þá.

„Það fer fátt meira í taugarnar á manni heldur en að sjá drykkjarumbúðir sem maður framleiðir einhvers staðar úti á götu eða úti í fjöru. Sem betur fer er það þannig að við sjáum ekki mikið af því, því Íslendingar eru mjög duglegir að skila þessu í endurvinnsluna, það er um og yfir 90% af drykkjarumbúðum sem kemur til baka í gegnum skilagjaldskerfið okkar, þetta skiptir okkur og viðskiptavini okkar gríðarlega miklu máli – að við séum að huga vel að þessum málum,“ sagði Einar Snorri.


Tengdar fréttir

Plastmengun vaxandi vandamál á norðurslóðum

Plastagnir finnast nú nær alls staðar í hafinu á norðurslóðum en frekari rannsóknir skortir til að rekja uppruna þeirra. Framleiðsla á plasti hefur aukist gífurlega á síðustu áratugum og útlit er fyrir að hún margfaldist fyrir miðja þessa öld.

Herferðir gegn plastmengun í september

Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu (UNRIC) tekur ásamt Evrópusambandinu og fleirum, þátt í strandhreinsunarátakinu #EUBeachCleanUp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×