Borgarleikhúsið heldur áfram að bjóða landsmönnum heima í stofu upp á skemmtun á tímum samkomubanns.
Í kvöld klukkan 20 er komið að einu af stórvirkjum leikhússögunnar, Ríkharði III, sýningunni sem var valin sýning ársins á Grímunni í fyrra.
„Hér er á ferðinni sannkallað listaverk sem alls ekki má missa af,“ sagði í leikdómi Sigríðar Jónsdóttur, sem birtist hér á Vísi.
Um er að ræða upptöku af sýningunni eins og hún var sett á svið í fyrra. Hægt verður að horfa á hana bæði hér á Vísi og á Stöð 3.
Fyrir sýninguna verður sýnt forspjall þar sem Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri, sem leikstýrði sýningunni, Hjörtur Jóhann Jónsson, sem fór með aðalhlutverkið, og Kristján Þórður Hrafnsson, skáld og þýðandi, ræða verkið og sýninguna.
Á meðan lesendur bíða eftir því að sýningin hefjist er hægt að rifja upp nokkur kynningarmyndbönd sem búin voru til fyrir frumsýninguna í fyrravetur.