Handbolti

Framkonur vilja hjálpa ÍR að halda úti kvennaliði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fram varð bikarmeistari í sextánda sinn eftir stórsigur á KA/Þór, 31-18, laugardaginn 7. mars.
Fram varð bikarmeistari í sextánda sinn eftir stórsigur á KA/Þór, 31-18, laugardaginn 7. mars. vísir/daníel

Bikarmeistarar Fram í handbolta kvenna hafa boðist til að rétta ÍR hjálparhönd í að halda úti kvennaliði.

Í síðustu viku bárust fréttir af því ÍR ætli ekki að tefla fram liði í Grill 66 deild kvenna á næsta tímabili. Þá verða U-lið karla og kvenna einnig dregin úr keppni.

Í færslu á Facebook-síðu Fram bjóðast Framkonur að mæta í Breiðholtið næsta haust og mæta ÍR í fjáröflunarleik til að hjálpa félaginu að halda úti kvennaliði.

„Því bjóðumst við til að mæta með bikarmeistaralið FRAM í Breiðholtið og mæta kvennaliði ÍR Handbolti í fjáröflunarleik til að aðstoða við að fjármagna næsta vetur í kvennahandboltanum hjá ÍR. Leikurinn getur farið fram í haust þegar samkomubanni hefur verið aflétt og útséð er með hvernig núverandi deildarkeppni fer fram,“ segir í færslunni.

Þar segir einnig að Fram renni blóðið til skyldunnar að rétta ÍR hjálparhönd þegar kvennahandboltinn verður fyrir áfalli.

Fram varð bikarmeistari fyrr í þessum mánuði og er nánast búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Fram er með fimm stiga forystu á Val þegar sex stig eru í pottinum.

ÍR er í 6. sæti Grill 66 deildarinnar af tólf liðum. ÍR-ingar eru með 21 stig eftir 20 leiki.

Einn af lykilmönnum Fram, landsliðskonan Þórey Rósa Stefánsdóttir, er uppalinn hjá ÍR.


Tengdar fréttir

ÍR dregur kvenna- og U-liðið úr keppni

Handknattleiksdeild ÍR hefur ákveðið að draga kvenna- og U-lið félagsins úr keppni á næstu leiktíð. Þetta staðfesti Sigurður Rúnarsson, formaður handknattleiksdeildar ÍR, í Sportinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×