Handbolti

Bikarúrslitum Gumma Gumm frestað fram í febrúar á næsta ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson stýrir Melsungen samhliða starfi sínu hjá HSÍ.
Guðmundur Guðmundsson stýrir Melsungen samhliða starfi sínu hjá HSÍ. vísir/andri marinó

Þýska handknattleikssambandið hefur ákveðið að úrslitahelgin í bikarkeppni karla tímabilið 2019-20 fari fram í febrúar 2021.

Eins og fleiri lönd hafa Þjóðverjar flautað handboltatímabilið af vegna kórónuveirufaraldursins.

Kiel voru krýndir þýskir meistarar en þýska handknattleikssambandið ætlar að klára úrslitahelgina í bikarkeppninni, þótt það verði ekki fyrr en eftir tæpt ár.

Úrslitahelgi bikarkeppninnar fer fram í Hamburg helgina 27. og 28. febrúar.

Í undanúrslitunum laugardaginn 27. febrúar mætast annars vegar Melsungen og Hannover-Burgdorf og hins vegar Lemgo og Kiel sem vann bikarinn á síðasta tímabili undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Úrslitaleikurinn fer svo fram sunnudaginn 28. febrúar.

Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Melsungen og Arnar Freyr Arnarsson gengur í raðir liðsins í sumar.

Bjarki Már Elísson leikur með Lemgo en hann varð markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Þá hefur verið ákveðið að leikurinn um þýska ofurbikarinn fari fram í Düsseldorf 2. september næstkomandi. Hann markar upphaf tímabilsins 2020-21. Þar mætast Kiel og Flensburg.


Tengdar fréttir

Guðmundur áfram með Melsungen

Guðmundur Guðmundsson stýrir þýska úrvalsdeildarliðinu Melsungen að minnsta kosti út næsta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×