Mikið kemur til með að mæða á Elvari í Egyptalandi en hann er klár í slaginn. Fyrsti leikur er við Portúgal kl. 19.30 í kvöld, en liðin eru nýbúin að vinna sinn leikinn hvort í rimmum sínum í undankeppni EM. Portúgalar gera sér vonir um að geta barist um verðlaun á mótinu.
„Mér finnst þetta mjög gott lið. Þeir eru með flotta gaura í öllum stöðum, mjög góðan markmann, og skipulagið þeirra er gott. Við sjálfir hugsum bara um einn leik í einu og okkar fyrsta markmið er að komast upp úr riðlinum. Það byrjar gegn Portúgölunum í þessu þriggja leikja einvígi sem við ætlum að vinna 2-1,“ segir Elvar.

Aðspurður hvort farið sé að hitna í kolunum eftir tvo leiki við Portúgal á skömmum tíma, í þríleik sem hófst á því að Portúgalar lömdu Alexander Petersson úr leik með fólskulegum hætti, segir Elvar:
„Við ætlum ekkert að láta þá komast upp með það. Við mætum þeim af hörku og ætlum að svara fyrir okkur eftir það sem þeir gerðu við Lexa. Ekki kannski í nákvæmlega sömu mynt, en markmiðið okkar er að fá sigur.“
Sjúkraþjálfararnir í yfirvinnu
Það er óvanalegt að lið mæti á stórmót eftir að vera nýbúin að spila í undankeppni, með tilheyrandi ferðalögum, en Elvar segir strákana okkar ferska. Sjúkraþjálfararnir Jóndi og Elli, eða Jón Birgir Guðmundsson og Elís Þór Rafnsson, sjái til þess:
„Sjúkraþjálfararnir eru bara í yfirvinnu þessa dagana við að nudda okkur og gera okkur mjúka. Við erum klárir í þennan þriðja leik á móti Portúgölum.
Í fjarveru Arons Pálmarssonar er mikilvægi Elvars enn meira en áður og hann er í lykilhlutverki á báðum endum vallarins. Þjálfarinn Ágúst Jóhannsson sagði í Seinni bylgjunni í vikunni að segja mætti með góðu móti að Elvar væri mikilvægasti leikmaður íslenska liðsins. Finnur hann fyrir mikilli pressu?
Gaman ef fólk býst við miklu af mér
„Það er bara gaman ef fólk býst við miklu af mér. Ég geri það líka sjálfur, set pressu á sjálfan mig og vona bara að ég standi mig. En mér finnst allir bara mikilvægir í þessu liði. Það þarf hver og einn að standa sig og skila sínu, og við allir að gera enn meira fyrst að Aron er ekki með,“ segir Elvar.
Selfyssingurinn hefur staðið sig vel með Skjern í Danmörku og mætir öflugri til leiks en á EM í Svíþjóð fyrir ári síðan:
„Já, klárlega. Maður er orðinn árinu eldri og að fara á sitt þriðja stórmót. Þessi reynsla hjálpar manni gríðarlega mikið við að undirbúa sig fyrir leiki og mæta með rétt spennustig og slíkt. Mér finnst ég hafa þroskast sem leikmaður, bæði sóknarlega og varnarlega.“