Elvar byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði tvö af fyrstu þremur mörkum Íslands, en þriðja mark hans kom ekki fyrr en 50 mínútum síðar. Eins og flestir af sóknarmönnum Íslands á hann meira inni en hann sýndi í kvöld:
„Ég byrjaði þetta ágætlega og skoraði tvö mörk en svo veit ég ekki hvað gerist. Ég þarf að skoða vídjó og hugsa minn gang, og koma sterkur á móti Alsír. Núna þurfum við bara að fara að undirbúa okkur fyrir það,“ sagði Elvar í viðtali við Vísi.
Leikurinn við Portúgal var fyrir fram talinn sá mikilvægasti í riðlinum ætlaði Ísland sér stóra hluti á HM, því fyrir fram mátti búast við að bæði lið færu áfram í milliriðil:
„Auðvitað vildum við vinna þennan leik og eiga möguleika á að vera á toppnum í riðlinum, það var planið, en við tökum þessu bara og mætum klárir í næsta leik. Við höfum bara hugsað um Portúgal, í síðustu þremur leikjum sem er svolítið sérstök staða, en núna hefst undirbúningur fyrir Alsír, sem er stuttur. Við þurfum því að vera gríðarlega skarpir á öllum fundum og skoða vídjó vel,“ sagði Elvar en Ísland mætir Alsír á laugardagskvöld.
Lélegt af okkur og á ekki að gerast
„Þetta er gríðarlegt svekkelsi. Það sem er manni efst í huga er hversu mikið af tæknifeilum við gerðum, sem fóru með þennan leik. Maður er pirraður á því,“ sagði Elvar. Eftir stórsigur gegn Portúgal á Ásvöllum á sunnudaginn gekk Íslandi mun verr að skora í kvöld:
„Ég veit ekki á hvað er réttast að skrifa þetta. Þetta er bara lélegt af okkur og á ekki að gerast. Mér fannst við oft á tíðum spila ágætis sóknarleik, opna vörnina þeirra oft, en svo komu allt of margir tæknifeilar í röð sem skiluðu þeim þessu forskoti. Það er erfitt á móti svona góðu liði,“ sagði Elvar. Ísland fékk sáralítið af auðveldum mörkum, svo sem úr hraðaupphlaupum.
„Það skrifast á þessa tæknifeila. Við fengum alveg hraðaupphlaup en þurfum að nýta þau betur. Við megum ekki tapa boltanum svona auðveldlega. Það tekur mikið úr manni en við börðumst alveg til enda og ætluðum okkur alltaf að vinna. Þessir tæknifeilar voru bara of margir,“ sagði Elvar.