Tomas Svensson, markmannsþjálfari íslenska landsliðsins og aðstoðarmaður Guðmundar Guðmundssonar, sagði sænskum blaðamanni frá dularfullum kringumstæðum í kringum það þegar Aron Pálmarsson var afskrifaður frá heimsmeistaramótinu.
Samkvæmt Svensson þá fékk læknir íslenska liðsins ekki að skoða Aron Pálmarsson til að meta meiðslin sem halda honum frá heimsmeistaramótinu.
Sænski blaðamaðurinn Johan Flinck á Aftonbladet sagði frá þessu á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.
Intressant intervju i dag med Tomas Svensson i Handbollslandslagets Gameday-app om mystiken kring Palmarssons skada och VM-återbud.
— Johan Flinck (@JohanFlinck) January 17, 2021
Islands landslagsläkare fick inte ens undersöka honom.
Svensson kopplar till ny kontraktsförlängning med Barça.
Þetta passar ekki við það sem Handknattleikssambandið gaf út þegar tilkynnt var um forföll Arons Pálmarssonar 2. janúar síðastliðinn.
„Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði, hefur þurft að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla á hné. Eftir læknisskoðun hjá læknum landsliðsins er það ljóst að Aron verður ekki leikfær nú í janúar,“ sagði í fréttinni á heimasíðu HSÍ.
Sú tilkynning kom aðeins nokkrum dögum eftir að Aron hafði spilað tvo leiki á tveimur dögum með Barcelona á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar.