Slóvenía mætti heimaliði Egyptalands í úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitum HM í gær. Leikurinn endaði með jafntefli, 25-25, sem fleytti Egyptum í átta liða úrslitin. Slóvenar sátu hins vegar eftir með sárt ennið.
Á ýmsu gekk í aðdraganda leiksins en daginn fyrir leikinn mikilvæga gegn Egyptalandi veiktust hvorki fleiri né færri en tólf leikmenn Slóveníu af matareitrun. Í pistli á heimasíðu slóvenska handknattleikssambandsins eru Egyptar hreinlega sakaðir um að hafa eitrað fyrir Slóvenum.
Þeim þyki grunsamlegt að allt hafi verið í lagi fyrstu ellefu dagana á hótelinu en fyrir leikinn gegn heimaliðinu hafi tólf leikmenn allt í einu veikst.
Hrasaði í eigin ælu
„Fyrir leikinn gegn Egyptalandi fengu tólf leikmenn matareitrun og urðu mjög veikir. Drengirnir öskruðu af sársauka, ældu og flýttu sér á klósettið eins og lífið lægi við,“ segir á heimasíðu slóvenska handknattleikssambandsins.
„Stas Skube og Dragan Gajic voru sérstaklega illa haldnir um nóttina og í búningsklefanum fyrir leikinn hrasaði Blaz Blagotinsek í eigin ælu og var fluttur aftur á hótelið.“
Skube, Gajic og Blagotinsek tóku ekki þátt í leiknum í gær en hinir níu sem fengu matareitrunina spiluðu leikinn.
Á ekki von á aðgerðum
Í færslunni á heimasíðu slóvenska handknattleikssambandsins segist formaður þess, Goran Cvijic, ekki vera bjartsýnn á að málið verði skoðað til hlítar.
„Eftir að við tilkynntum opinberlega um það sem gerðist hafði heilbrigðisráðuneyti Egyptalands samband við okkur. En ég á ekki von á neinum aðgerðum meðan IHF, Alþjóða handknattleikssambandið, starfar eins og það gerir,“ sagði Cvijic.