Á sýningunni Þar sem heimurinn bráðnar er hægt að líta augum 80 ljósmyndir eftir RAX. Myndirnar spanna um 35 ára tímabil af ferli hans en elsta myndin á þessari sýningu, af Axel á Gjögrií bát, var tekin árið 1986. Sumar ljósmyndanna eru að birtast núna í fyrsta sinn opinberlega.
„Þetta er svona ferðalag. Byrjar á fjöllunum þegar maður gengur inn í salinn, Roscoe fjöll sem að eru ein fallegustu fjöll í heimi. Þannig byrjar ævintýrið,“ segir RAX um uppsetningu sýningarinnar.
„Svo kemur maður inn í lífið í þorpunum og hjá hundunum. Íslensku jöklarnir eru á veggjunum sitthvorum megin við. Þegar þú lest vegginn þá sérðu hann að bráðna, næstsíðasta myndin er eins og spjóti sé stungið upp í jökulinn og honum sé að blæða út.“
Svo taka við myndir frá lífinu af Íslandi. Af fólki, dýrum, mannlífi og náttúru.
Vekur upp spurningar
„Meginþemað er Grænland og svo förum við í gegnum veðrið, storminn og endum þar sem er komin smá óreiða og drungi. Endamyndin er af firði sem var frosinn fyrir 25 árum og þú fórst um á hundasleða og nú fer maður þar um á bát. Hvert er þetta að fara? Þetta vekur upp spurningar.“
RAx segir þó að hann sé alls ekki með neinn áróður með þessari sýningu.
„Ég vil ekki vera að predika neitt en vil leyfa fólki að hugsa og horfa.“

RAX segir að fólk sé vissulega ekki sammála um orsakir breytinganna en það geti samt allir gestir sýningarinnar velt þessu fyrir sér.
„Það er að hlýna hvort sem okkur líkar það betur eða verr, jörðin er í þeim fasa. En menn þurfa að halda haus og mega ekki alveg missa sig. Það eru tækifæri og fólk þarf að eiga möguleika á að lifa.“
Fær illt í fingurinn þegar hann sér myndina
Hann á erfitt með að velja eina uppáhalds mynd þar sem það breytist reglulega. „Þetta er eins og að eiga uppáhalds lag á plötu, svo þolir þú það ekki og fílar næsta og svo kemur það aftur.“
Honum þykir samt einstaklega vænt um tvær myndir sem hann tók af veiðimönnum á Grænlandi í miklum kulda. Frostið var mikið og tók RAX af sér vettlingana í augnablik á meðan hann myndaði. Fingurnir frusu án þess að hann yrði þess var og hefur hann enn ekki fengið fulla tilfinningu í þumalfingur eftir þessa ferð.

„Þetta voru myndir sem ég varð að ná. Þegar maður er að segja þessa sögu, var ég heppinn að lenda í eins og þessu veðri sem skellur á.“
RAX viðurkennir að hann fái enn illt í fingurinn þegar hann skoðar myndina af veiðimanninum, en segir samt að þetta ljósmyndaævintýri í meira en fjörtíu stiga frosti hafi verið þess virði.
Listasafninu er nú skipt í nokkur sóttvarnarhólf og geta tuttugu einstaklingar heimsótt sýninguna í einu. Sýningarstjóri er Einar Geir Ingvarsson. Allar myndirnar á sýningunni eru til sölu í takmörkuðu upplagi. Frekari upplýsingar má nálgast á vef ljósmyndarans eða hjá útgáfu hans, Querndu.
Dökka herbergið í uppáhaldi
Hluti myndanna er sýndur í dökkmáluðum hliðarsal, þar sem dulúðin og stemningin á myndum ljósmyndarans verða enn magnaðri. Einar Geir sýningarstjóri er einnig hönnuður bóka ljósmyndarans og segir hann að markmiðið hafi verið að skapa svipaðar aðstæður og hann skoðar venjulega myndir RAX í.
„Það er alltaf frekar dimmt á skrifstofunni minni. Þegar ég fæ sendar nýjar myndir frá RAX til að skoða þá er það alltaf jafn stórkostlegt. Það er einfaldlega gjöf.“
Hann vildi því leyfa sýningargestum að upplifa myndirnar með sama hætti, í þögninni og kyrrðinni þar sem ekkert truflar.

Óður til sleðahundsins
Á sýningunni má meðal annars sjá nokkrar myndir úr bókum ljósmyndarans eins og Andlit norðursins, Fjallaland, Jöklar og einnig nýjustu bók hans Hetjur Norðurslóða. Fjallað hefur verið um bókina af mörgum af stærstu fjölmiðlum heims síðustu vikur eins og Guardian, The Times og fleiri.
Hetjur Norðurslóða er óður RAX til grænlenska sleðahundsins og sambandsins sem myndast hefur milli manns og hunds í veiðimannasamfélaginu á Grænlandi. Hann hefur ferðast um Grænland í um 40 ár og hefur á þeim árum safnað sögubrotum af harðri lífsbaráttu Grænlendinga í sambýli við besta vin mannsins.
Margar af myndum sýningarinnar eru því teknar á Grænlandi en einnig eru myndir sem RAX hefur tekið á Íslandi í gegnum árin. Bókinn Jökull var óður hans til jökla á Íslandi og á sýningunni eru bæði myndir úr þeirri bók og áður óbirtar myndir hans af jöklum. RAX ólst upp í grennd við jökla og hefur flogið vél sinni í ótal skipti yfir hjarnbreiður þeirra.

Umhverfi sem er sífellt að breytast
„Í meira en 40 ár hefur Ragnar Axelsson myndað fólk, dýr og landslag afskekktustu svæða norðurslóða, þar með talið hér á landi, í Síberíu og á Grænlandi. Hann vinnur nú að því að stækka þetta svæði og ferðast mjög víða í leit sinni að myndefni. Í ljósmyndaverkum sínum og ljósmyndabókum endurspeglar hann óvenjuleg tengsl íbúa norðurslóða við öfgakennt umhverfi sitt – tengsl sem eru nú stöðugt að breytast vegna breytinga á loftslagi. Ragnar skrásetur hvernig þessar breytingar hafa áhrif á líf fólks og dýra og hvaða ógn býr að baki hlýnun jarðar,“ segir meðal annars um sýninguna á vef Listasafnsins.
„Í gegnum myndavélarlinsuna sér Ragnar og varðveitir frásögn sem tekur örum breytingum eftir því sem hefðir norðurskautsins og umhverfi þess dregst meira saman. Hér, í tilkomumiklu umhverfi fjalla, jökla og þorpa, blasa við þrír heimar; fólkið, dýrin og síbreytilegt landið sem þau byggja.“
Nánar má lesa um sýninguna hér.
RAX hefur sagt sögurnar á bak við margar af myndunum á sýningunni í þáttunum RAX Augnablik hér á Vísi og á eftir að segja frá enn fleiri myndum sýningarinnar á næstu mánuðum. RAX Augnablik birtast á Vísi alla sunnudaga og fara samhliða því inn á Stöð 2+ (áður Maraþon).
Hér fyrir neðan má sjá nokkra þætti sem fjalla um myndir á sýningunni Þar sem heimurinn bráðnar.
Alla þættina af RAX Augnablik má finna hér á Vísi.