Handbolti

Dramatískt jafn­tefli í Kórnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lovísa Thompson reynir að brjótast í gegnum vörn HK.
Lovísa Thompson reynir að brjótast í gegnum vörn HK. vísir/hulda margrét

HK og Valur gerðu dramatískt jafntefli, 32-32, er liðin mættust í sjöundu umferð Olís deildar kvenna í dag. Bæði lið fengu tækifæri undir lok leiksins til að vinna.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en Valsstúlkur voru þó ávallt skrefi á undan. Góður kafli um miðbik fyrri hálfleiksins sá til þess að HK jafnaði og allt var jafnt í hálfleik 18-18.

Sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Valur náði þriggja marka forystu er tíu mínútur voru eftir en HK kom sér aftur inn í leikinn. Bæði lið fengu tækifæri til þess að tryggja sér sigurinn á síðustu mínútunni.

Alexandra Von Gunnarsdóttir varði úr horninu frá Ragnhildu Eddu Þórðardóttur og Kristín Guðmundsdóttir skaut í stöngina fyrir HK er þrjár sekúndur voru eftir. Lokatölur 32-32.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir gerði sjö mörk fyrir HK og Díana Kristín Sigmarsdóttir og Sigríður Hauksdóttir sex hvor. Lovísa Thompson skoraði átta fyrir Val, Thea Imani Sturludóttir fimm og þær Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir fjögur.

Valur er með tíu stig, jafn mörg og KA/Þór á toppi deildarinnar, en HK er með fimm stig í fimmta og sjötta sæti deildarinnar.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×