Sandy Munro er framleiðslusérfræðingur og einn helsti gagnrýnandi smíðagæða Tesla. Munro stofnaði fyrirtæki sem framkvæmir mælingar út frá kröfum framleiðenda til að kanna hvort hlutir standist kröfur sem gerðar eru til þeirra (e. benchmarking). Fyrirtækið heitir Munro & Associates.
Elon Musk tekur ábyrgð í viðtalinu á þeim vandkvæðum sem komið hafa upp í framleiðslu Tesla. Musk byrjar á því að segja Munro að hann sé sammála því sem hann sagði í gagnrýni sinni og að hún væri nákvæm að hans mati.
„Það tók Tesla talsverðan tíma að fínpússa framleiðsluferlið, það orsakaðist einna helst af gríðarlegum vexti í afköstum,“ sagði Musk aðspurður um gríðarlegt bil á milli hluta yfirbygginga bílanna, sem stundum hefur fundist.
„Við gerðum helling til að bæta stöðugleika bilsins á milli hluta yfirbyggingarinnar og gæði lakksins í lok síðasta árs,“ bætti Musk við.