Nú þegar hafa fjórar kynslóðir starfað í búðinni: Amman, mamman, dæturnar og nú dætur þeirra. „Ég held reyndar að þetta sé ástríða. Okkur finnst þetta enn svo gaman því þetta er meira en áhugamálið okkar. Þetta er ástríða hjá okkur,“ segir Hrund.
Í helgarviðtali Atvinnulífsins heyrum við söguna á bakvið fjölskyldufyrirtækið Línan í Bæjarlind 6.
Aldar upp í búðarleik
Fyrsta verslun Línunnar var opnuð í Hamraborginni í Kópavogi. Stofnendur voru Kristján Sólbjartur Ólafsson, sem lést í október árið 2012 og eiginkona hans Kolbrún Óðinsdóttir. Þá voru í hluthafahópi systkini Kolbrúnar, Rögnvaldur, Margrét og eiginmaður hennar Jón H. Skúlason endurskoðandi, sem og foreldrar Kolbrúnar, þau Hulda Arnórsdóttir og Óðinn Rögnvaldsson.
„Í fyrstu seldi Línan húsgögn, vínyl plötur, fatnað og smávörur. Mamma og pabbi voru síðan brautryðjendur í sölu reyrhúsgagna og það voru þau húsgögn sem slógu svo rækilega í gegn,“ segir Hrund um upphafið.
Frá 1976 – 2004 var Kristján framkvæmdastjóri Línunnar en fyrstu árin störfuðu þar einnig systurnar Kolbrún og Margrét og móðir þeirra, Hulda.
Dætur Kristjáns og Kolbrúnar eru þrjár. Þar er elst Hrafnhildur, síðan Hrund og síðan Hulda Sigríður.
Við systurnar vorum aldar upp í búðinni og lékum okkur þar í búðarleik. Ég man sérstaklega eftir því hversu gaman það var að klæða okkur upp í mismunandi föt í Hamraborginni,“
segir Hrund og hlær af minningunni.

Aldrei að segja aldrei
Eftir tíu ár í Hamraborginni flutti Línan á Suðurlandsbraut þar sem Kristján og Kolbrún festu kaup á húsnæði. Nokkrum árum síðar kaupa þau aðra hluthafa út.
Ég ætlaði sko aldrei að verða eins og mamma og pabbi! Ég man bara að þau voru alltaf að vinna og töluðu um fátt annað en vinnuna. Ég vissi ekkert hvað ég vildi gera en var þó staðráðin í því að ætla aldrei að fara að vinna hér. Síðan eru liðin tæp þrjátíu ár og hér er ég enn!“
segir Hrund og skellir upp úr.
Áhugi Hrundar á tölvu- og tæknigeiranum nýttist þó fyrirtækinu vel því Hrund lærði allt sem hún gat í tölvu- og netmálum. Allt frá því að búa til heimasíðu yfir í að læra á þau forrit sem til þarf til hönnunar á auglýsinga- og markaðsefni.
„Það hjálpuðust líka allir að. Hrafnhildur systir vann hér um tíma, sérstaklega við útstillingar. Hulda systir vann hérna, bjó síðan erlendis um tíma en er búin að vera hér í mörg ár. Mamma kemur reyndar enn stundum til að afgreiða. Henni finnst þetta bara svo gaman,“ segir Hrund.

Með fulla vasa fjár…
Á Suðurlandsbraut var verslunin tekin í gegn og endurhönnuð af Dönum. Þar á meðal var byggt sjarmerandi lítið hús inni í versluninni sem oftar en ekki vakti mikla athygli viðskiptavina.
„Þá myndaðist oft mikil stemning á Þorláksmessukvöld því það kvöldið skapaðist sú hefð að vinir mömmu og pabba komu við og fengu jólaglögg," segir Hrund.
Að hennar sögn var jólasalan þó öðruvísi á þessum tíma og ekki óalgengt að á Þorláksmessu kæmu til dæmis sjómenn með fulla vasa fjár til að versla.
„Þetta voru engin smá kaup. Fólk keypti heilu borðstofusettin og sófasettin í stofuna. Á þessum tíma var salan miklu árstíðarbundnari því í dag er þetta allt öðruvísi og dreifist meira jafnt yfir árið,“ segir Hrund og bætir við:
Síðan voru mamma og pabbi bara eins og fólkið í VR auglýsingunni. Við rétt náðum að opna jólapakkana og þá sá maður að pabbi var farinn að dotta.“
Hrund segir foreldra sína alltaf hafa verið sniðug í því að nýta sér árstíðirnar þannig að salan næðist yfir allt árið.
„Fyrir fermingarnar voru það unglingahúsgögnin. Síðan furuhúsgögnin fyrir sumarbústaðaeigendur á sumrin og koll af kolli. Lútaða furan í Línunni var lengi aðalsmerkið okkar og mamma og pabbi byrjuðu óvenju snemma með amerísk rúm.“

Næsta kynslóð
Árið 1998 keyptu Hrund og Ágúst eiginmaður hennar helmingshlut í rekstrinum og árið 2004 urðu þau ein eigendur.
„Pabbi hafði talað fyrir því lengi að við tækjum við og hafði líka snemma úthlutað mér sérstökum verkefnum eins og tollaskýrslunum og auglýsinga- og markaðsmálin,“ segir Hrund.
Ég held reyndar að ég hafi verið komin með prókúruna bara um tvítugt. Því reikningar voru þá greiddir með ávísun í banka og ég þurfti líka prókúru fyrir tollaskýrslurnar. Þetta þýddi líka að ég gat snemma leyst pabba af þegar þess þurfti,“
segir Hrund og bætir við: „Í dag er það hins vegar Gústi maðurinn minn sem er með bestu yfirsýnina. Hann veit upp á hár hvað er til og hvar vörurnar eru, sér um að greiða reikninga, laun og svo framvegis. Ég sé hins vegar um innkaupin, samninga við birgja og að finna réttu vörurnar.“
Eftir tuttugu ár á Suðurlandsbraut flutti Línan í Bæjarlind 6. Þar var fjárfest í að innrétta gott leiguhúsnæði en eins átti Línan lagerhúsnæði rétt hjá.
Stuttu síðar varð bankahrun.
Salan hrundi og maður vissi ekkert hvað myndi gerast. Í raun var það Gústi sem kom okkur í gegnum þetta, að minnsta kosti bjargaði hann andlegu hliðinni. Því það voru alls kyns áhyggjur og hugsanir sem maður var með á þessum tíma.“
Og Hrund heldur áfram:
„Erfiðast þótti mér að þurfa að segja upp starfsfólkinu. Því alla tíð höfum við verið með hreint út sagt frábært starfsfólk. Þau sýndu aðstæðum fullan stuðning og má frekar segja að þau hafi huggað okkur en við þau. Ég held að þessar uppsagnir sé eitt það erfiðasta sem ég hef þurft að gera.“
Til að forðast þrot eða skuldasöfnun var ákveðið að pakka búðinni hreinlega saman og flytja vörurnar í lagerhúsnæðið. Þar var opið um helgar til að selja af lager.
„Við náðum síðan að opna aftur í Bæjarlind árið 2010. Það jákvæða var líka að hluti af okkar frábæra starfsfólki kom aftur. Ein er hjá okkur enn, en einn sem starfaði lengi hjá okkur á lagernum er kominn á aldur og þess vegna hættur.“

„Ég er ekki mamma mín“
Hrund segir þó eitt og annað jákvætt við tímabilið eftir hrun.
„Pabbi greindist með krabbamein árið 2006 og fellur frá árið 2012. Mamma og pabbi náðu þó að ferðast mikið og nýta tímann vel árin áður en hann dó. Það sama gilti um okkur. Fyrst búðin var lokuð höfðum við meira svigrúm til að njóta samvista með mömmu og pabba.“
Hún segir enn eima af því að viðskiptavinir komi í verslunina, sem upphaflega kynntust Línunni í Hamraborg.
Fólk ruglar mér og mömmu oft saman. Bara núna um daginn komu hjón þar sem konan sagðist muna svo vel eftir mér frá því í Hamraborg. Ég leiðrétti hana og benti á að ég er ekki mamma mín,“
segir Hrund og hlær.
Hrund segir að sem betur fer hafi salan smátt og smátt farið að aukast eftir hrun og umsvif aukist. Til að mynda hefur Línan verið meðal framúrskarandi fyrirtækja Creditinfo síðustu árin.
En hvernig er staðan nú í Covid?
„Í fyrstu bylgju Covid dróst salan verulega saman en hrundi ekki eins og í bankahruninu. En fólk tók síðan við sér og hefur líka aukið mikið að versla á netinu þannig að árið 2020 skilaði aukningu eftir allt saman.“

Glódís
En það eru ekki aðeins amman, mamman og dæturnar sem hafa starfað í Línunni því þar vinna einnig dætradæturnar.
Í hlutastarfi starfar Sólbjört Jóhannesdóttir í Línunni, en hún er dóttir Hrafnhildar eldri systur Hrundar. Þá hefur Kolbrún dóttir Huldu Sigríðar oft hjálpað til.
Glódís Eva, dóttir Hrundar og Ágústar, hefur síðan starfað í fullu starfi í Línunni frá árinu 2014.
En hvernig kom það til Glódís?
Mæðgurnar skella uppúr en síðan segir Glódís:
Ég get svarað því eins og mamma áðan því þá lýsti hún sama uppeldi og ég fékk. Mamma og pabbi voru alltaf að vinna og töluðu um fátt annað en vinnuna. Ég ætlaði sko ekki að verða eins og mamma og pabbi og var því ákveðin í því að fara aldrei að vinna í Línunni.“
En málin æxluðust þó á þann veg að Glódís ákvað að slá til.
„Ég ákvað að láta undan mömmu og prófa,“ segir Glódís og brosir. Í Línunni hefur hún fetað svipaða slóð og móðir sín, lært á öll sömu forritin og sér um auglýsingamál og heimasíðuna svo fátt eitt sé nefnt.
En í búðinni er líka til sölu stóll sem heitir Glódís. Hvernig kom það til?
„Á sýningu í París sá Glódís eitt sinn barborð frá hollenskum birgja. Barborðið hét eftir viðskiptavini framleiðandans og þegar Glódís heyrir söguna, slær hún þeirri hugmynd fram hvort þeir geti ekki nefnt einhverja vöru í höfuðið á henni. Það var þó sagt í gamni,“ segir Hrund og bætir við:
En viti menn. Nokkrum vikum síðar höfðu þeir samband og sögðu okkur að það væri búið að hanna nýjan stól og nefna hann í höfuðið á Glódísi!“
En Glódís, ætlar þú að taka við af foreldrum þínum seinna meir?
Hlátur. Þögn og síðan enn meiri hlátur.
„Maður á víst aldrei að segja aldrei en nei, ég er svo sem ekki með hugann við það í dag,“ svarar dóttirin en mamman brosir breitt og endurtekur: „Maður á aldrei að segja aldrei!“
Gamla myndin
