Handbolti

Björg­vin Páll: Langar bara enn meira að kveðja með titli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Björgvin svekkir sig í kvöld.
Björgvin svekkir sig í kvöld. vísir/vilhelm

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, var ekki ánægður með frammistöðu síns liðs í leiknum gegn FH í kvöld sem endaði með jafntefli.

„Mér fannst við ógeðslega lélegir í þessum leik og vorum að gera auðveld mistök bæði varnar- og sóknarlega. Það er svolítið skrýtið að vera sáttur með eitt stig hér í restina. Það sýnir styrk okkar að vera drulluóánægðir en sækja samt stig hér í Krikann,“ sagði Björgvin þegar Vísir ræddi við hann eftir leik.

Haukar gerðu mörg mistök sóknarlega í síðari hálfleik en Björgvin Páll vildi þó ekki bara kenna því um það sem illa fór.

„Þetta var á öllum sviðum. Varnarlega byrjum við illa og fáum á okkur eitthvað af tveimur mínútum. Þegar við komumst í varnargírinn þá fór að opnast fyrir línu og þetta féll ekki alveg með okkur. Hver er sinnar gæfu smiður og við þurfum að einbeita okkur að okkar leik því við viljum gera betur í svona stöðu.“

„Mér fannst við vera komnir með þá en þá gerðum við alltaf einhver mistök í viðbót. Í Haukum er það bara ekkert í boði,“ sagði Björgvin en viðurkenndi að Haukar hefðu sýnt karakter í lokin.

„Algjörlega, við spilum ekki frábæran leik en náum þó í stig. Við höldum bara áfram í næsta leik.“

Það var tilkynnt á dögunum að Björgvin Páll gengur til liðs við Val eftir tímabilið en hann skrifaði undir fimm ára samning við Hlíðarendaliðið.

„Þetta var erfið ákvörðun en við vinnum þetta faglega. Haukarnir gerðu þetta hrikalega vel, tóku þessu af fagmennsku. Þetta skiptir engu máli því við erum í þessu til að vinna alla leiki. Mig langar bara meira að kveðja liðið með titli, við spýtum enn meira í. Það eina sem er í boði er að vinna, meðal annars að vinna alltaf FH og það skiptir engu máli hvað gerist í sumar,“ sagði Björgvin Páll að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×