Leyfisráð KSÍ kom saman í gær og fór yfir umsóknir félaganna. Sextán umsóknir uppfylltu ekki öll skilyrði og félögin sem sendu þær umsóknir fá viku til að bæta úr því sem upp á vantaði, fyrir seinni fund leyfisráðs, svo að þau fái að spila á Íslandsmótinu í sumar.
Til samanburðar var það þannig að á fyrri fundi leyfisráðs í fyrra voru tíu umsóknir um þátttökuleyfi samykktar en fimmtán hafnað. Þær voru svo samþykktar á seinni fundi ráðsins.
Í leyfisreglugerð KSÍ eru meðal annars kröfur sem lúta að aðbúnaði fyrir áhorfendur, yngri flokka starfi, fjárhagsstöðu og fleiru.
KA eina liðið í efstu deild karla sem bíður
Í efstu deild karla í ár var það aðeins KA sem ekki fékk leyfisumsókn sína samþykkta í gær. Hin ellefu félögin fengu grænt ljós í fyrstu tilraun.
Í efstu deild kvenna fengu fimm af tíu félögum þáttökuleyfi, eða Breiðablik, Fylkir, Stjarnan, Valur og nýliðar Keflavíkur.
Það þýðir að ÍBV, Selfoss, Þróttur R., Þór/KA og nýliðar Tindastóls þurfa að laga sínar umsóknir til að fá leyfi.
Aðeins tvö félög í næstefstu deild karla, Afturelding og Fram, fengu þáttökuleyfi samþykkt í gær. Hin tíu liðin eru Fjölnir, Grindavík, Grótta, ÍBV, Kórdrengir, Selfoss, Vestri, Víkingur Ó., Þróttur R. og Þór.