Lagið heitir Minn eigin dans og er annað lagið sem Vala sendir frá sér. Boðskapurinn í textanum er mjög skýr. Hún segir að lagið sé samið fyrir sig og alla þá sem hafa upplifað sig skrítna og stundum ekki nógu góða fyrir þennan heim.
„Við erum svo upptekin af því að koma vel fyrir út á við, að sjálfið, allt það sem gerir okkur að okkur, hefur liðið fyrir það.“
Þurfum ekki að vera eins og hinir
Textinn hefur því persónulega merkingu fyrir söngkonuna en hún syngur meðal annars um óeinlæg bros, tilgerðarleika og yfirborðselsku í laginu.
„Ég hef alveg farið fram og til baka í þessu sjálf. Að langa að passa bara inn og vera samþykkt, en á sama tíma hef ég ríghaldið í sjálfa mig. Vegna þess að ef ég missi sjónar á því hver ég er og hvað ég stend fyrir, þá er ekkert eftir. Ég vil dansa minn eigin dans í gegnum þetta líf, hvort sem hann hugnast öllum eða ekki.“
Vala syngur sjálf lagið og á bæði lag og texta. Hún spilar einnig á djembe og bassatrommu í laginu.
„Við þurfum ekki að lifa lífinu eins og allir hinir til að lifa því rétt. Við þurfum ekki að vera eins og allir hinir til að vera rétt,“ segir Vala að lokum. Lagið er komiið á Spotify en áskrifendur veitunnar geta hlustað á það hér fyrir neðan.