Rannsóknin var framkvæmd í háskólanum í Flórída. Þátttakendur voru fólk sem eru í stjórnendastöðum en eins líka fólk sem telst vera á mikilli uppleið og stefnir því hraðbyrinn á toppinn.
Fylgst var með hegðun þeirra og venjum í nokkurn tíma.
Það sem kom í ljós var að þessi hópur fólks, virðist eiga það sameiginlegt að gefa sér smá tíma í það á hverjum morgni, að fara aðeins yfir það hvernig dagurinn verður og hvernig það sjálft ætlar að standa sig.
Til dæmis í verkefnum, að aðstoða aðra eða í samskiptum við aðra. Eða hvernig ætlunin er að vera valdeflandi og hafa áhrif á aðra til góðs.
Þetta þýðir alls ekki að fólk í stjórnendastöðum, setjist niður í einhvers konar íhugun til að undirbúa velgengni dagsins.
Þvert á móti, er fólk hvatt til þess að nýta tímann á morgnana þegar það er að gera sig klárt til vinnu.
Til dæmis er upplagt að leggja línurnar fyrir daginn þegar fólk fær sér fyrsta kaffibollann.
Hér eru einföld ráð til að gefa hugmyndir um atriði sem hægt er að velta aðeins fyrir sér, áður en haldið er til vinnu.
- Hvernig leiðtogi vilt þú vera?
- Ímyndaðu þér að dagurinn í dag fari eins vel og best verður á kosið. Hvernig verður þá dagurinn?
- Hvaða eiginleikum býrð þú yfir, sem gerir þig að sérstaklega góðum leiðtoga? (og hvernig ætlar þú að nýta þá í dag?)
- Hvaða stundir, atburðir eða verkefni standa upp úr hjá þér og gerir þig alltaf jafn stolta/n að hugsa um? (það er gott að rifja þessi augnablik oft upp)
- Hvaða jákvæðu áhrif viltu hafa á starfsfólkið þitt í dag eða samstarfsfélaga? Er það hvatning, að veita innblástur, að styrkja hæfileika fólks/teymis eða eitthvað annað?