Guðmundur lék með Grindavík síðasta sumar þar sem hann skoraði sex mörk í 14 leikjum í Lengjudeildinni. Guðmundur sleit samningi sínum við Grindavík á dögunum og hefur nú samið við Framara.
Síðast lék Guðmundur með Frömurum sumarið 2018 og var þá markahæstur í næst efstu deild með 18 mörk. Hann samdi við ÍBV í kjölfarið þar sem hann skoraði aðeins eitt mark í 10 leikjum í Pepsi Max-deildinni. Eyjamenn lánuðu hann um mitt sumarið til Víkings í Ólafsvík áður en leið hans lá til Grindavíkur.
Fyrrum samherjar Guðmundar frá Ólafsvík verða einmitt fyrsti mótherji Fram þegar Lengjudeildin hefur göngu sína þann 8. maí næst komandi. Framarar voru grátlega nálægt því að komast upp úr deildinni í fyrra en Leiknir Reykjavík fór upp á þeirra kostnað vegna betri markatölu.