Rakel skoraði 24 mörk í fimm leikjum í úrslitakeppninni í aðeins 31 skoti sem gerir 77 prósent skotnýtingu. Þrjú af þessum 24 mörkum Rakelar voru stærri og mikilvægari en önnur og áttu risastóran þátt í því að KA/Þór vann þrjá leiki.
Eftir að hafa tapað fyrsta leiknum gegn ÍBV í undanúrslitunum þurfti KA/Þór að fara til Eyja og vinna til að knýja fram oddaleik. Og það gerðu Akureyringar og unnu 21-24 sigur.
Þegar skammt var til leiksloka var staðan jöfn, 21-21, eftir tvö mörk í röð frá ÍBV. Þá skoraði Rakel afar mikilvægt mark af línunni eftir að hafa tekið frákast og kom KA/Þór aftur yfir. Gestirnir skoruðu svo tvö mörk í viðbót og gulltryggðu sér sigurinn.
Oddaleikur KA/Þórs og ÍBV var gríðarlega spennandi og úrslitin réðust í framlengingu. Þar steig Rakel fram og skoraði sigurmark Akureyringa þegar hún fór inn úr hægra horninu og setti boltann skemmtilega yfir Mörtu Wawrzykowska í marki Eyjakvenna. Lokatölur 27-26, KA/Þór í vil.
Í seinni viðureign Vals og KA/Þórs í endurtók Rakel svo leikinn frá því gegn ÍBV. Í stöðunni 22-23 fyrir Akureyringa fór Rakel inn úr hægra horninu og „hausaði“ Sögu Sif Gísladóttur eins og ekkert væri eðlilegra fyrir átján ára leikmann í stærsta leik sínum á ferlinum.
Þessi þrjú mikilvægu mörk Rakelar má sjá hér fyrir neðan.
Rakel skoraði alls 75 mörk í deildar- og úrslitakeppninni í vetur og var með 70,1 prósent skotnýtingu.
KA/Þór vann alla þrjá titlana sem keppt var um á tímabilinu. Liðið vann Meistarakeppnina eftir sigur á Fram, 23-30, og varð svo deildarmeistari eftir jafntefli við Fram í Safamýrinni, 27-27. Akureyringar settu svo punktinn fyrir aftan frábært tímabil með því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á Hlíðarenda í gær.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.