Fótbolti.net kveðst hafa heimildir fyrir því að Sævar Atli sé á leið til Danmerkur hvar hann muni ganga undir læknisskoðun hjá Lyngby á morgun. Sævar er 21 árs gamall sóknarmaður og sóknartengiliður sem hefur skorað tíu mörk í 13 leikjum fyrir Leikni í Pepsi Max-deildinni í sumar.
Sævar Atli hafði samið við Breiðablik um að ganga í raðir þeirra grænklæddu þegar samningur hans við Leikni rennur út í lok tímabils, en það var með þeim fyrirvara að Sævar finni sér ekki lið í atvinnumennsku í millitíðinni.
Nú virðist sem Sævar fari ekki í Kópavog, en fari í stað þess í dönsku B-deildina og muni þar spila undir stjórn Freys Alexanderssonar.
Lyngby féll úr efstu deild í fyrra en hefur unnið fyrstu tvo leiki sína undir stjórn Freys í B-deildinni. Þá vann liðið 9-0 sigur á utandeildarliðinu Österbro í dönsku bikarkeppninni í kvöld.