Valsmenn náðu sex stiga forskoti á toppnum með 2-1 sigri á Keflavík þar sem Sigurður Egill Lárusson skoraði bæði mörk Valsmanna á fyrsta hálftímanum en Ástbjörn Þórðarson minnkaði muninn i byrjun seinni hálfleiks.
Mikkel Qvist tryggði KA 2-1 sigur á Stjörnunni á Akureyri með laglegu skallamarki níu mínútum fyrir leikslok. Ásgeir Sigurgeirsson kom KA í 1-0 á 29. mínútu en Hilmar Árni Halldórsson jafnaði metin eftir átta mínútna leik í seinni hálfleik.
FH-ingar fóru á kostum í 5-0 sigri á Leikni í Kaplakrika þar sem fimm leikmenn komust á blað hjá Hafnarfjarðarliðinu. Steven Lennon, Matthías Vilhjálmsson, Pétur Viðarsson, Morten Beck Guldsmed og Oliver Heiðarsson skoruðu mörkin.
KA komst upp í annað sæti deildarinnar með sigrinum og FH-ingar fóru upp fyrir Leikni og í sjötta sætið. Umferðin klárast síðan með þremur leikjum í kvöld.
Mörkin úr leikjunum þremur frá því í gær eru öll hér fyrir neðan.