Hólmfríður verður 37 ára í næsta mánuði, en hún og Einar Karl Þórhallsson eiga von á barni. Hólmfríður hefur því ákveðið að láta þetta gott heita af knattspyrnuiðkun.
Á ferli sínum hefur Hólmfríður komið víða við og lék nú síðast á Selfossi. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að hún sé næst leikjahæsta knattspyrnukona Íslandssögunnar í deildarkeppni, með 334 leiki, og að hún skilji eftir sig djúp spor í íslenskri knattspyrnusögu.
Hólmfríður hóf feril sinn hjá KR, en hefur einnig leikið með ÍBV og Val hér heima.
Ásamt því að leika á Íslandi var Hólmfríður lengi vel úti í heimi í atvinnumennsku. ún lék með Avaldsnes í Noregi, danska Fjortuna Hjörring, Kristianstads í Svíþjóð og Philadelphia Independence í Bandaríkjunum.
Hólmfríður á einnig að baki 113 landsleiki fyrir Íslands hönd. Í þeim hefur hún skorað 37 mörk, sem gerir hana að næst markahæstu landsliðskonu Íslands á eftir Margréti Láru Viðarsdóttur.
Í mars síðastliðnum sendi Hólmfríður frá sér tilkynningu þess efnis að skórnir væru komnir upp í hillu, en Selfyssingar náðu að sannfæra hana um að taka eitt tímabil enn. Hún skilur við Selfyssinga í fimmta sæti Pepsi Max deildarinnar.