Vísir ætlar að kafa aðeins í tölfræði Wyscout frá nýloknu tímabili í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu en þar má finna margt áhugavert nú þegar síðasti leikurinn hefur verið spilaður í Pepsi Max deild karla 2021.
Guy Smit var sá markvörður í deildinni sem bjargaði flestum mörkum með markvörslum sínum samkvæmt úttekt Wyscout.
Alls sá Smit til þess að Leiknisliðið fékk á sig 11,8 færri mörk en liðið hefði að öllu eðlilegu átt að fá á sig þegar kemur að markalíkum eða XG eins og það er skammstafað á ensku.
Guy Smit fékk á sig 30 mörk í leikjunum 22 en hann varði alls 91 skot eða fleiri en allir markmenn deildarinnar. Smit kom í veg fyrir hálft mark á hverjum níutíu mínútum sem hann spilaði.
Sá sem kom í fyrir næstflest mörk var markvörður Keflvíkinga, Sindri Kristinn Ólafsson, sem bjargaði 5,34 mörkum. Þriðji var síðan KA-markvörðurinn Steinþór Már Auðunsson sem bjargaði 5,26 mörkum.
Víkingurinn Ingvar Jónsson lék bara sjö leiki en náði samt sjötta sæti listans. Það var aðeins Guy Smit sem bjargaði fleiri mörkum á hverjar níutíu spilaðar mínútur.
Á hinum enda töflunnar var síðan HK-markvörðurinn Arnar Freyr Ólafsson sem fékk á sig 8,91 fleiri mörk en hann átti að fá á sig. Á undan honum var Fylkismarkvörðurinn Ólafur Kristófer Helgason sem fékk á sig 4,83 fleiri mörk en markalíkur gáfu tilefni til.
Ólafur Kristófer spilaði hins vegar aðeins fimm leiki og kom því ekki vel út á hverjar níutíu spilaðar mínútur.
- Flestum mörkum bjargað af markvörðum Pepsi Max deildar karla 2021:
- 1. Guy Smit, Leikni R. 11,75
- 2. Sindri Kristinn Ólafsson, Keflavík 5,34
- 3. Steinþór Már Auðunsson, KA 5,26
- 4. Beitir Ólafsson, KR 3,29
- 5. Hannes Þór Halldórsson, Val 2,35
- 6. Ingvar Jónsson, Víkingi 1,74
- -
- Flest varin skot í Pepsi Max deild karla 2021:
- 1. Guy Smit, Leikni R. 91
- 2. Sindri Kristinn Ólafsson, Keflavík 90
- 3. Steinþór Már Auðunsson, KA 79
- 4. Aron Snær Friðriksson, Fylki 77
- 5. Beitir Ólafsson, KR 70
- 5. Hannes Þór Halldórsson, Val 70