Á föstudags- og laugardagskvöld fer La Travita eftir Verdi aftur á fjalirnar í Eldborg, en hún var sýnd fyrir fullu húsi sex sinnum árið 2019, hlaut lof gagnrýnenda og hefur nú verið leigð út til nokkurra erlendra óperuhúsa. Þann 13. nóvember leggur sýningin svo í víking til Akureyrar og verður sett upp í Hofi í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar.
Vegna mikillar eftirspurnar var bætt við aukasýningu í Hofi klukkan 16:00 sunnudaginn 14. nóvember. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, segir uppsetningu óperunnar tímamót í íslenskri menningarsögu og ávinning af henni fyrir listalíf landsfjórðungsins ómetanlegt.
„Einnig er það fagnaðarefni að samstarfið mun veita atvinnutónlistarmönnum á öllu landinu tækifæri til að taka þátt í sýningu í svo háum gæðaflokki,“ bætir hann við.
![](https://www.visir.is/i/72E8E2A4EC47023A4942ACB08B9F00AF477FC627B9B89B6A78A503B44DE0F027_713x0.jpg)
Fyrsta sinn á landsbyggðinni
Það er Sinfóníuhljómsveit Norðurlands undir stjórn finnska hljómsveitarstjórans Anna-Maria Helsing sem sér um tónlistarflutning, bæði í Eldborg og Hofi, og að sýningunni koma einnig dansarar og 30 manna kór Íslensku óperunnar. Þetta verður í fyrsta sinn Íslenska óperan leggur í ferðalag út á land en vonandi ekki það síðasta.
„Við viljum reyna að halda áfram á þessari vegferð,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri.
„Íslenska óperan er auðvitað þjóðarinnar allrar og við viljum að sem flestir landsmenn geti notið sýninga okkar,“ segir Steinunn.
„Óperan La Travita þykir ein sú allra fallegasta sem samin hefur verið. Hún er ástarsaga fylgdarkonu frá París og ungs manns utan af landi en þau eiga í forboðnu ástarsambandi sem úr verður mikill harmleikur,“ segir í tilkynningu frá Íslensku óperunni.
![](https://www.visir.is/i/05C25168AC3A5C1732D0048C2919A2508890495FAB645A392A11A2848B325F68_713x0.jpg)
Sterk baráttukona
Herdís Anna Jónasdóttir sem hlaut grímuverðlaun fyrir túlkun sína á söguhetjunni Víólettu segir persónuna að mörgu leyti einstaka í óperu bókmenntunum
„Þar er oft hlutskipti kvenhetjan að vera einhvers konar fórnarlamb eða þá verðlaunagripur fyrir karlhetjuna; þær eru ýmist ambáttir eða prinsessur. Víóletta sker sig frá öðrum hlutverkum því hún er sterk kona með mikinn persónuleika og er að reyna að berjast út úr þeim aðstæðum sem hún er í,“ segir Herdís.
Þá sé hlutverkið afar krefjandi vegna þess að hún fari með mikinn texta og fylgi persónunni í gegn um allan skala tilfinninganna,
„Frá hæstu hæðum og gleði í veisluhöldum yfir í að bíða dauðans.“