Handbolti

Daníel og félagar bundu enda á fjögurra leikja taphrinu með sigri í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Daníel Þór Ingason í leik með Ribe-Esbjerg í dönsku deildinni. Hann leikur nú með HBW Balingen-Weilstetten í þýsku úrvalsdeildinni.
Daníel Þór Ingason í leik með Ribe-Esbjerg í dönsku deildinni. Hann leikur nú með HBW Balingen-Weilstetten í þýsku úrvalsdeildinni. Ribe-Esbjerg

Daníel Þór Ingason og félagar hans í HBW Balingen-Weilstetten unnu í dag virkilega sterkan tveggja marka sigur gegn Arnóri Þór Gunnarssyni og félögum hans í Bergischer, 30-28. Þetta var fyrsti sigur Balingen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta síðan 9. október.

Nokkuð jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins, en í stöðunni 6-6 tóku heimamenn í Balingen við sér og skoruðu fjögur mörk í röð. Liðið hélt forystunni út hálfleikinn, en þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan 17-15, Balingen í vil.

Daníel og félagar hélfu forystunni lengst af í seinni hálfleik. Gestinrir gáfust þó ekki upp og þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka náðu þeir að jafna metin í 27-27. Að lokum voru það þó heimamenn í Balingen sem reyndust sterkari á lokakaflanum og unnu góðan tveggja marka sigur, 30-28.

Arnór Þór skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer og Daníel setti tvö fyrir Balingen.

Daníel og félagar eru í nú í 15. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir tíu leiki, þrem stigum á eftir Arnóri og félögum sem sitja í 12. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×