Svava Kristín Gretarsdóttir hitti Rakel Dögg á heimili hennar þar sem Rakel umkringd börnunum sínum og fjölskyldu. Hún spurði Rakel út í væntingar liðsins og gengið í vetur en líka út í það af hverju það eru ekki fleiri konur að þjálfa í deildinni.

„Er það bara ekki þessi gamla mýta að konurnar hafi í gegnum tíðina verið meira að hugsa um fjölskylduna. Þetta er ófjölskylduvænt sport. Mig langar ótrúlega mikið að sjá þróunina öðruvísi,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir.
„Ég held líka að þetta byrji bara hjá okkur í yngri flokkum. Það þarf að draga stelpurnar meira inn þar í þjálfun og í sjálfboðastarf frá því þær eru í þriðja flokki eða fjórða flokki. Að fá þær meira inn í starfið og gera þetta meira „normalt“ heldur en það er,“ sagði Rakel Dögg.
„Það síðasta sem við viljum er að missa eina kvenþjálfarann úr deildinni. Þú ert eini kvenþjálfarinn í deildinni. Hugsar þú ekki stundum: Af hverju er ég að þessu,“ spurði Svava Kristín.
„Það beinist ekki að því hvort ég sé kvenmaður eða ekki. Að vera þjálfari er ein tegund af sjálfspíningarhvöt. Það er ekkert eðlilegt hvað maður tekur þetta inn á sig, að vera keppnismaður og fyrrverandi leikmaður. Að klippa leiki sem ég veit að enda illa á móti því að klippa leik sem ég veit að við unnum. Þetta er bara tvennt ólíkt og svo þessi tilfinningarússibani sem fylgir því að vera þjálfari,“ sagði Rakel Dögg.
„Þá koma mómentin sem ég hugsa: Hvað í fjandanum er ég að gera? Svo um leið og maður mætir inn á gólf, hittir þessar stelpur og er með hóp sem er til í að gefa allt í þetta, þá breytist það. Þegar maður uppsker fyrir tímann sem maður setur í þetta og spilar góðan leik eða það heppnast hlutir sem maður er búinn að leggja mikið á sig til að ná. Það eru mómentin sem gefa til baka og þá er þetta besta starf í heimi,“ sagði Rakel Dögg.
Það má heyra brot úr viðtalinu við hana hér fyrir ofan en allt viðtalið verður síðan í Seinni bylgjan extra á næstunni.
Hér má sjá líka sérfræðinga Seinni bylgjunnar tala um Rakel og hversu frábær fyrirmynd hún er.