Í Atvinnulífinu í dag og á morgun er fjallað um umhverfi giggara á Íslandi og hvaða lönd í heiminum þykja bestu staðsetningar fyrir giggara að búa á.
Topp tíu listinn: Hvar er best að búa?
Sífellt fleira fólk kýs að starfa sjálfstætt á verktakasamningum frekar en að ráða sig sem launþega.
Oft til að vinna sem mest að verkefnum sem fólk brennur hvað mest fyrir, hefur sérþekkingu á og/eða verkefni og í vinnu sem fellur best að þeirra lífstíl.
Ekki síst nú, þegar fjarvinna er orðin svo vel þekkt og viðurkennd í kjölfar heimsfaraldurs.
Í alþjóðlegri rannsókn sem kynnt var á dögunum, eru tekin saman listi yfir þrjátíu lönd með tilliti til þess hvar er best eða hagstæðast fyrir giggara að búa.
Fyrirtækið Tide stóð að rannsókninni og eru mælikvarðarnir sem stuðst er við af ýmsum toga.
Allt frá því hvar netsamband er best og ódýrast yfir í hvar hamingjustuðull fólks er að mælast mest eða jafnrétti best, hvar er ódýrast að búa og fleira.
Hér eru þau tíu lönd sem skoruðu hvað hæst.
1. Singapore
Singapore mældist með hæstu einkunn sem meðal annars má rekja til þess að þar er netið bæði gott og fremur ódýr kostnaðarliður og eins er mikið framboð af hagkvæmum húsnæðiskostum fyrir giggara að leigja sér. Þetta eru þá klasarými af ýmsum toga.
2. Nýja Sjáland
Þótt internetið sé frekar dýrt í Nýja Sjálandi mælist Nýja Sjáland í öðru sæti. Það skýrist af því að þar eru réttindi giggara talin vera hvað best, hamingjustuðull íbúa þar er mjög hár og jafnrétti telst gott.
3. Spánn
Að búa á Spáni er ódýrt með tilliti til húsnæðis, matarkostnaðar og fleira og þar mælist jafnrétti líka nokkuð gott.
4. Ástralía
Hraði internetsins í Ástralíu er sá hægasti í þeim tíu löndum sem skora hvað hæst en það sem kemur Ástralíu í fjórða sætið er að hamingjustuðull Ástrala mælist hár og jafnrétti sömuleiðis gott.
5. Danmörk
Af Norðurlöndunum eru það Danir og Svíar sem komast efst á lista. Danmörk er í 5.sæti en Svíþjóð í 9.sæti.
Í samanburði við flest önnur lönd á topp tíu listanum þykir reyndar dýrt að búa í Danmörku en á móti kemur að Danir mælast hamingjusamasta þjóðin í heimi.
Næstu lönd á topp tíu listanum eru:
6. Kanada
7. Sviss
8. Litháen
9. Svíþjóð
10. Írland

Mesta eftirspurnin
Þau lönd sem virðast sækjast hvað mest eftir giggurum í verkefni eða störf eru eftirfarandi:
- Holland
- Sameinuðu arabísku furstadæmin
- Singapore
- Ástralía
- Portúgal
- Frakkland
- Brasilía
- Spánn
- Sviss
- Kanada
Þau þrjú lönd sem mældust neðst á listanum eru Japan, Kína og Ítalía. Skýringin er meðal annars sú að eftirspurnin eftir giggurum í þessum löndum telst minni, réttindin ekki nægilega góð, netið of hægt eða of dýrt.
Taka þarf tillit til þess að rannsóknin náði aðeins til þeirra þrjátíu landa sem birt eru á listanum, en Ísland er ekki þeirra á meðal. Nánar má lesa um rannsóknina hér.