Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna alltaf klukkan hálfsjö. Nota tímann til að elda hafragraut og borða morgunmat með drengjunum mínum og drekka kaffi með manninum mínum.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Það fyrsta sem ég geri á virkum dögum er að kveikja á útvarpinu, taka úr uppþvottavélinni frá því kvöldið áður og setja yfir grautinn.“
Á skalanum 1-10, hversu mikið jólabarn ertu?
Á mig rennur stundum jóla-æði í aðdraganda jóla. Mjög oft er skammur tími til undirbúnings þar sem ég er iðulega föst í þingstörfum fram að jólum.
En samt sem áður vegna þessa æðis á ég það til að þvo gardínur á nóttunni eða gera konfekt eða hlaða einhverju jólaskrauti hingað og þangað.
Mér finnst gaman á jólum, elska samverustundir með fjölskyldunni og að eiga daga sem fyrst og fremst eru hefðbundnir, borða mat, lesa bók og horfa á mynd.
Þannig að jólabarn, já ég er það, örugglega að minnsta kosti 8.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Þessa dagana eru það þingstörfin eins og gjarnan fyrir jól og svo auðvitað sóttvarnir sem eru því miður langvarandi viðfangsefni.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Ég skrifa lista um það sem þarf að gera, reyni að fresta því ekki til morguns sem hægt er að gera í dag og reyni að vera einbeitt í því verkefni sem ég er að sinna hverju sinni.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég fer að sofa milli klukkan tíu og ellefu ef aðstæður leyfa. Það besta er að ná átta tímum.“