Handbolti

Arnór og Bjarki skiptu stigunum á milli sín | Ekkert getur stöðvað Magdeburg

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk fyrir Lemgo í kvöld.
Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk fyrir Lemgo í kvöld. Alex Grimm/Getty Images

Það voru Íslendingar í eldlínunni í þremur af þeim fjórum leikjum sem spilaðir voru í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta á þessu Þorláksmessukvöldi. Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer gerðu jafntefli gegn Bjarka Má Elíssyni og félögum í Lemgo, 27-27.

Gestirnir í Bergischer tóku forystuna snemma leiks og náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik í stöðunni 9-14. Heimamenn klóruðu í bakkann fyrir hlé, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 13-16, Bergischer í vil.

Heimamenn í Lemgo jöfnuðu metin fljótt í síðari hálfleik, en aftur náðu Arnór og félagar þriggja marka forskoti stuttu seinna. Bergischer hélt forystunni lengst af, en undir lok leiksin tóku heimamenn í Lemgo gott áhlaup og jöfnuðu á ný þegar um mínúta var til leiksloka. Liðin skoru svo sitt markið hvort á lokamínútunni og niðurstaðan varð því jafntefli, 27-27.

Bjarki Már og Arnór skoruðu báðir fjögur mörk fyrir sín lið, en Lemgo er nú í áttunda sæti deildarinnar með 18 stig, sjö stigum meira en Bergischer sem situr í 14. sæti.

Þá var Ómar Ingi Magnússon atkvæðamikill í liði Magdeburg sem vann öruggan átta marka sigur gegn Hamburg, 34-26.

Ómar skoraði sjö mörk fyrir Magdeburg og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt. Liðið situr sem fyrr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir 16 leiki, en ekkert virðist geta stöðvað sigurgöngu þeirra.

Að lokum gerðu Daníel Þór Ingason og félagar hans í HBW Balingen-Weilstetten sitt annað jafntefli í röð þegar liðið heimsótti Füchse Berlin. Lokatölur urðu 26-26, en Daníel og félagar eru enn í næst neðsta sæti deildarinnar með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×